139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

Varnarmálastofnun.

317. mál
[13:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf en ég bið hann um að fara yfir spurningalistann aftur og svara þeim spurningum sem hann gerði ekki áðan.

Hæstv. ráðherra talar mikið um þá hagræðingu sem þarna verður og þann mikla sparnað sem af niðurlagningu Varnarmálastofnunar hlýst. Ég hlýt að benda hæstv. ráðherra á að það hefur akkúrat ekkert með niðurlagningu stofnunarinnar að gera. Sá sparnaður sem þarna er og óumdeilt er að hafi náðst fram er kannski vegna þess að þegar við lögðum af stað í upphafi vissum við ekki nákvæmlega hvað við þyrftum að verja miklu til þessa verkefnis. Og fyrst hæstv. fjármálaráðherra situr hér man ég að hann spáði því við 2. umr. upprunalega málsins að þetta mundi allt aukast og verða 3–4 milljarðar þegar fram liðu stundir. Það hefur ekki orðið heldur hefur Varnarmálastofnun og fyrrverandi forstjóri hennar náð ótrúlega fínum árangri í því einmitt að nýta fjármagn sem best en það hefur ekkert með niðurlagningu stofnunarinnar að gera.

Það sem skiptir mestu máli í þessu, og ég ætla ekki einu sinni að virða hv. þm. Mörð Árnason viðlits í að svara þeim aðdróttunum sem hann var með hér, eru öryggis- og varnarhagsmunir Íslands. Nú er hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson orðinn yfirhershöfðingi Íslands. Hann er sá sem ber ábyrgð á Norðurvíkingi, hann er sá sem ber ábyrgð á loftrýmisgæslunni. Í Norðurvíkingi í sumar verða 550 erlendir hermenn. Yfirhershöfðingi íslenska heraflans, Ögmundur Jónasson, mun væntanlega hafa yfirumsjón með þessu. Þess vegna spyr ég: Eru þessi verkefni tryggð? Vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra sagði í gegnum þessa umræðu alla að skuldbinding okkar gagnvart bandalaginu væri algerlega tryggð, haldið yrði áfram verkefnum sem áður voru, starfsmennirnir fengju áfram vinnu. Þess vegna spurðum við: Af hverju er þá verið að þessu ef þetta á allt saman að vera óbreytt? En nú er þetta komið undir hæstv. herstöðvarandstæðing, Ögmund Jónasson yfirhershöfðingja, og því er ekki nema von að við sem berum þetta fyrir brjósti séum dálítið uggandi.