139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

Varnarmálastofnun.

317. mál
[13:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem hefur verið á köflum bæði fróðleg og skemmtileg og mjög málefnaleg. Ég vil nú segja það gagnvart hv. þm. Merði Árnasyni að ég sé ekkert athugavert við það að hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir gangi eftir því sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að hún sé að skoða í fullri alvöru, að Landhelgisgæslan verði flutt á Suðurnes. Hv. þingmaður hefur verið mér lengi samferða í stjórnmálum og veit nákvæmlega mína skoðun á því máli, að ég er því hlynntur (Gripið fram í.) og er ekki hægt að ásaka mig fyrir kjördæmapot í því efni. (Gripið fram í.)

En hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir svaraði sjálf þeim spurningum sem hún bar fram að mestu leyti. Svarið við fjórðu spurningunni er já. Svarið við þriðju spurningunni liggur í augum uppi, hún svaraði henni sjálf. Hún tilgreindi meira að segja þann mann sem á að halda utan um þessa tegund varnarviðbúnaðarins. Hins vegar legg ég áherslu á að í hennar eigin flokki eru uppi alvarlegar efasemdir (Gripið fram í.) um það, þ.e. hv. þm. Jón Gunnarsson hefur þráfaldlega lýst því yfir að hann telji að það sé ekki þörf á því. Það er sjálfsagt að skoða það, ég hef verið honum ósammála.

Þá held ég að ég sé búinn að svara öllum þeim spurningum sem hv. þingmaður varpaði til mín, meira að segja þeim sem ekki eru skrifaðar niður. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir varpaði til mín spurningu um það hvaða verkefni færðust yfir til Landhelgisgæslunnar núna. Það eru þau verkefni sem eru skilgreind í varnarmálalögum, þ.e. varnarmálasamskiptin, vöktun og eftirlit, rekstur kerfa, umsjón mannvirkja, það fer til Landhelgisgæslunnar. Ég skýrði hv. þingmanni frá því að tveir ráðuneytisstjórar muni skoða fram til 15. mars hvort einhver þessara verkefna eigi að fara annað.

Það sem mestu skiptir í þessu er tvennt: Alþjóðlegum skuldbindingum er fullnægt, réttur starfsmanna er varinn og í leiðinni hefur okkur tekist að spara fyrir hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) 700 millj. og ég fullyrði að það er hægt að spara enn töluvert meira.