139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

fjölgun öryrkja.

239. mál
[13:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. 7. þingmaður Norðausturkjördæmis spyr um fjölgun öryrkja hér á landi síðustu 10 ár og hverjar séu helstu ástæður fyrir fjölguninni. Það er staðreynd að öryrkjum hefur fjölgað hér á landi á undanförnum árum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að sama þróun hefur átt sér stað í OECD-ríkjunum og sýna skýrslur að líkur á örorku hafa einnig aukist í þeim löndum undanfarna áratugi. Tölur frá árinu 2008 sýna að fjöldi öryrkja er hlutfallslega lægri á Íslandi en í Noregi og Svíþjóð, hærri en í Færeyjum og í Danmörku.

Á undanförnum árum hefur örorka aukist tiltölulega meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Þróunina má rekja til aukins atvinnuleysis hér á landi á síðustu árum sem hafði ekki verið fram að síðasta áratug síðustu aldar.

Tölur frá Tryggingastofnun sýna að öryrkjum fjölgaði um nær 50% á árunum 2000–2009. Árið 2000 voru öryrkjar rúmlega 10.800 en á síðasta ári hafði þeim fjölgað í um 16.000 eða um rúmlega 5.000 manns. Þetta er mikil fjölgun en hún er þó ekki meiri en fjölgunin sem varð á árunum 1993–2002. Á því tímabili fjölgaði öryrkjum um tæplega 5.000. Fjölgun í hópi öryrkja hefur því verið stöðug undanfarin ár. Aftur á móti verður ekki séð að fjölgunin hafi verið meiri á síðustu 10 árum en árin þar á undan sem er merkilegt í sjálfu sér. Þá hefur dregið úr fjölgun öryrkja síðustu ár. Þannig hefur meðalaukningin verið 3,6% milli ára á síðustu 5 árum. Þegar horft er til næstu 5 ára þar á undan var meðalaukningin 6,6%. Það vekur raunar athygli að algengi örorku hefur lítið breyst frá árinu 2005 þrátt fyrir efnahagskreppu og stóraukið atvinnuleysi og hefur öryrkjum reyndar fækkað á undanförnum mánuðum.

Hv. þingmaður spyr einnig um helstu ástæður fjölgunar öryrkja. Því er ekki auðsvarað og fræðimenn eru alls ekki á einu máli um hvert svarið eigi að vera. Það er fyrst fjárhagslegur ávinningur að fá örorkubætur og í sumum tilfellum eykur það tekjur einstaklinga umtalsvert. Þetta á einkum við um láglaunafólk og þá sérstaklega einstæða foreldra. Nokkur umræða hefur átt sér stað um kjör fólksins að undanförnu og fagna ég allri slíkri umræðu og tel hana mikilvæga. Það ber þó að varast að setja alla öryrkja undir einn hatt í þessari umræðu því kjör öryrkja eru afar misjöfn. Því miður er það staðreynd í íslensku þjóðfélagi að margir öryrkjar búa við bág kjör og því þarf að breyta.

Atvinnuleysi er oft nefnt sem ein af ástæðum þess að öryrkjum fjölgar. Því mætti ætla nú þegar atvinnuleysi er meira hér á landi en nokkru sinni áður þá hefði algengi örorku átt að aukast verulega frá því að það var síðast kannað árið 2005. Aftur á móti kemur í ljós að frá þeim tíma hefur aukningin aðeins verið um hálft prósentustig hjá báðum kynjum. Þegar tekið er tillit til breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar frá 2005 er munurinn vart marktækur. Þetta kann þó að breytast því að mögulega er of skammur tími liðinn frá bankahruninu til að áhrifa breyttra aðstæðna og algengi örorku sé að fullu komin í ljós. Þess ber einnig að geta að starfsendurhæfing hefur verið efld verulega undanfarin ár og skipulag hennar bætt í samvinnu hins opinbera og við ýmsa aðila. Þetta skiptir að sjálfsögðu einnig máli.

Fleiri þættir en ég hef þegar nefnt hafa áhrif á fjölda öryrkja. Örorka er metin á grundvelli heilsufars samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þó er ljóst að félagslegir og fjárhagslegir þættir hafa einnig talsvert vægi m.a. umfang atvinnuleysis. Í nýlegri óbirtri rannsókn um algengi örorku á Íslandi kemur fram að örorka er mun algengari hjá konum en körlum en 60% öryrkja eru konur og 40% karlar.

Hjá báðum kynjum eru geðraskanir og stoðkerfisraskanir algengustu sjúkdómsflokkarnir. Þá fer algengi örorku stigvaxandi með aldri hjá báðum kynjum. Örorka er algengari hjá körlum í yngstu aldurshópunum 16–24 ára en hjá konum er örorka algengari í eldri aldurshópi.

Auk fyrrgreindra atriða má nefna þætti eins og fólksfjölgun, breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar en líkur á örorku aukast með hækkandi lífaldri, auknu álagi og auknum kröfum um arðsemi á vinnumarkaði, almenna vakningu vegna geðrænna sjúkdóma og hækkun örorku umfram annars konar aðstoð, svo sem atvinnuleysisbætur og fjárhag sveitarfélaga. Eins og ég nefndi áðan eru ekki allir á einu máli um þetta og eflaust mætti rannsaka orsakirnar frekar.

Það vinnst ekki tími til að fara yfir málið í heild af því að tími minn er að renna út. Það má þó geta þess að það er brýnt að endurmeta með hvaða hætti örorka er metin. Þar hafa menn verið að vinna að því að reyna að byggja og meta starfsgetu fólks frekar en skort á getu til starfa. Ég get fjallað um það síðar í svari mínu.