139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

fjölgun öryrkja.

239. mál
[13:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mikilvægt að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að fjölgun öryrkja verði ekki umtalsverð heldur fækki ef eitthvað er. Ég held að það sé mikilvægt að farið verði í að endurskoða endurhæfingarúrræði á Íslandi. Við höfum verið að skoða þau mál í heilbrigðisnefnd Alþingis. Það eru nokkrar stofnanir sem þar hafa sinnt mikilvægu hlutverki úti á landsbyggðinni en líka á höfuðborgarsvæðinu. Í næsta nágrenni við okkur er heilsustofnun í Hveragerði, ég vil líka minnast á Reykjalund og endurhæfingardeild Grensás. Það eru fleiri stofnanir sem hægt er að tína til. Ég held að það sé mikilvægt að fara yfir þessi mál og reyna að efla endurhæfingu á Íslandi til að varna því að fólk verði öryrkjar, ef hægt er að koma í veg fyrir það.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort hann viti hver sé ástæðan fyrir því að við erum með færri öryrkja en Noregur og Svíþjóð en fleiri en Danmörk. Hvað hafa Danir gert til að lækka sína tölu?