139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

fjölgun öryrkja.

239. mál
[13:56]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson spyr hvaða úrræðum hægt sé að beita til að reyna að auka færni öryrkja og þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Það er nákvæmlega það sem menn þurfa að huga hvað mest að og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir bendir réttilega á. Þar kemur inn mikilvægi starfsendurhæfingar, alls kyns virkni og úrræði í atvinnuleysi, endurmenntun og annað slíkt sem beitt er skipulega til að reyna að hindra að fólk lendi í örorku vegna atvinnuleysis. Menn hafa verið með atvinnu með stuðningi sem eina af lausnunum. Vinnumálastofnun hefur líka verið með virk vinnumarkaðsúrræði og Virk á vegum Alþýðusambandsins. Aðilar vinnumarkaðarins hafa líka gripið kröftuglega inn í.

Það er rétt sem hv. þingmaður ýjar að að frítekjumark sem ekki skerðir lífeyri er frekar lágt. Það er ekki nema 27–28 þús. kr. Þó ber að geta þess að hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum er markið aðeins 10 þús. kr. Þetta þarf hvort tveggja að auka þó að það sé erfitt í þessu efnahagsástandi og með kostnaðinum sem því fylgir. Í heildina verðum við að reyna að vinna skipulega að því að breyta örorkumatinu þannig að menn meti starfsgetu fólks frekar en skort á getu til starfa. Þetta kallar á nýja vinnuferla m.a. til að efla starfsgetumat og virkni fólks í endurhæfingarúrræðum. Þetta verður að skoða í samhengi og tryggja að kerfin virki vel saman sem er mikilvægt. Auk þess þarf að stuðla að aukinni skilvirkni með hagsmuni fólksins að leiðarljósi.

Þetta er verkefni sem fer með okkur inn í nýtt ár. Ég heiti á stuðning fyrirspyrjanda og annarra að við reynum að ná þessum málum fram og koma þeim enn betur á veg.