139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

störf þingsins.

[11:33]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Í jólamánuðinum blómstrar menningin, sérstaklega bókmenningin, og ýmis merkileg rit koma á prent. Nýlega kom út mjög áhugaverð ævisaga eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing sem hefur hlotið mjög góða dóma og miklar vinsældir og hefur m.a.s. orðið fréttaefni. Ég ætla að lesa úr frétt sem birtist í DV, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn stefndi á síðustu öld að því að hafa trúnaðarmenn í öllum fyrirtækjum í höfuðborginni með fleiri en tíu í starfsliði og fylgdist með skoðunum fólks. Þetta kemur fram í bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um ævi Gunnars Thoroddsens.“

Þetta þykja mér mjög áhugaverðar fréttir um félagsfræðirannsóknir á vegum stjórnmálaflokka sem styrktar eru af almannafé. Mig langar til að spyrja hvort þessar merkilegu sagnfræðiupplýsingar verði ekki gerðar aðgengilegar á netinu hið allra fyrsta vegna þess að gaman væri fyrir þá sem uppi eru núna að komast að því hvaða pólitísk gen eru í þeim. Sömuleiðis langar mig til að vita hvort það markmið sem þarna er talað um, (Forseti hringir.) að koma upp persónunjósnum hjá öllum fyrirtækjum sem eru með fleiri en tíu í starfsliði, hafi náðst.