139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

störf þingsins.

[11:38]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið í dag til að ræða samhengi menntamála og atvinnumála í landinu. Eins og við þekkjum hefur atvinnuleysi verið mikið í samfélaginu allt frá hruni bankakerfisins. Það stendur nú í 7,7% samkvæmt nýjustu tölum, hefur reyndar sem betur fer lækkað nokkuð frá því sem mest var í byrjun árs 2009 þegar það var 9,3%. Það sem ég vil vekja sérstaka athygli þingheims á í dag er að stærsti einstaki hópurinn er ungt fólk á aldrinum 16–25 ára en í þeim hópi eru núna um 2.300 manns, þ.e. 17% atvinnulausra í landinu.

Það sem er hins vegar sláandi við þær tölur sem við erum að fá núna er að þegar við skoðum þennan hóp nánar, 16–25 ára atvinnuleitendur, kemur í ljós að þrír af hverjum fjórum, 76%, eru eingöngu með grunnskólanám að baki. Reyndar er hlutfallið hjá körlum enn hærra, 79%. Það sem ég vil brýna fyrir þingheimi við þessar aðstæður er að við einbeitum okkur að því á fyrstu mánuðum nýs árs að finna úrræði sem tryggja að þessi hópur, ungt fólks á aldrinum 16–25 ára, þurfi ekki að vera á atvinnuleysisbótum mánuðum og missirum saman, jafnvel árum saman eins og við horfum upp á núna. Þarna er mikið verk að vinna. Í haust þurftu framhaldsskólarnir í landinu að vísa frá 800 ungmennum sem vildu hefja nám í framhaldsskólunum en komust ekki að. Svona getum við ekki staðið að málum. Það er ekkert mikilvægara sem við gerum í atvinnumálum en að tryggja ungu fólki menntun við hæfi. Þannig fjárfestum við í verðmætasköpun morgundagsins.

Þetta verðum við að gera með samstilltu átaki stjórnvalda, háskólanna, framhaldsskólanna og aðila vinnumarkaðarins og við þurfum að verja til þess nokkru fjármagni á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur nýlega varið 40 milljörðum kr. í að bæta (Forseti hringir.) vegakerfið í landinu. Við þurfum ekki nema brot af þeirri upphæð, líklega innan við 5%, til að mennta það unga fólk sem núna er atvinnulaust.