139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[11:45]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins forgangsröðun í samgöngumálum og ætla að beina spurningum til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, formanns samgöngunefndar.

Það eru mikil vonbrigði að viðræðuslit skyldu hafa orðið við lífeyrissjóðina um samgöngumál en því ber þó að fagna að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara í vegagerð fyrir tæpa 40 milljarða kr. á næstu fjórum árum. Ég vil reyndar að það komi fram að ég er algjörlega á móti innheimtu vegtolla. Mér finnst þeir skattlagning á fólk sem býr á landsbyggðinni en sé það eina leiðin til að fara í slíkar vegaframkvæmdir er það þó illskárra. Ég er samt aðeins hugsi yfir þessari forgangsröðun. Það kemur fram í hugmyndum ríkisstjórnarinnar að það eigi að fara í vegagerð á Suðurlandsvegi og Hellisheiði, það á að fara í Vaðlaheiðargöng, Reykjanesbraut og svo veginn á milli Selfoss og Hveragerðis. Ég vil taka það sérstaklega fram að öll þessi verkefni eru góðra gjalda verð og ég er hlynntur því að farið verði í þessar framkvæmdir. Ég hef hins vegar efasemdir um þessa forgangsröðun meðan vegir eins og t.d. í Barðastrandarsýslu og á Vestfjörðum eru í raun og veru samgönguminjar. Þeir eru algjörlega ófærir. Mér finnst að á svona tímum þurfum við einfaldlega að klára uppbyggingu vegakerfisins áður en við förum í endurbætur. (Gripið fram í: Hvað með …?) Til dæmis Veiðileysuháls og við getum nefnt endalaust. Við verðum að klára þessa vegi sem ekki hafa verið uppbyggðir, eru malarvegir enn þá. Ég spyr hv. þingmann hvort það hafi verið rætt í samgöngunefnd að fara í þessi verkefni, í þessar samgönguminjar á Vestfjörðum, eða hvort það eigi einfaldlega að friða þær minjar sem er göfugt í þeim skilningi. Kemur e.t.v. til greina að fara í smærri verkefni og dreifa þeim víða um land og láta (Forseti hringir.) fleiri njóta þeirra ruðningsáhrifa sem fylgja slíkum verkefnum?