139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[11:52]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef áhuga á sagnfræði, alveg eins og hv. þm. Einar Guðfinnsson, en ég hef enn þá meiri áhuga á nútímanum. Þess vegna langar mig til að ítreka þá spurningu sem ekkert svar kom við áðan, ekki einu sinni snubbótt, og er í framhaldi af eftirfarandi tilvitnun í frétt DV, með leyfi forseta:

„Stefndi flokkurinn að því að hafa trúnaðarmenn í öllum fyrirtækjum með fleiri en tíu í starfsliði og skyldi sérhver þeirra vera „trúverðugur og dugandi maður“.“

Þarna er verið að setja upp stórfelldasta njósnaprógramm sem ég hef nokkurn tímann heyrt talað um og hef ég þó lesið þýska sögu bæði þriðja ríkisins og Austur-Þýskalands og það eina sem fúnkeraði í því landi var leyniþjónustan Stasi.

Ég spurði áðan: Er þessi starfsemi enn í gangi? Hefur þessu göfuga markmiði verið náð? Náðist það einhvern tímann? Hvað tókst að njósna mikið og hvenær verða þessar niðurstöður njósnanna aðgengilegar á netinu? Eða hefur þeim verið tortímt?