139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[11:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Þráni Bertelssyni hafi sést yfir að hann fékk svar við einni af þeim spurningum sem hann bar fram áfram og ítrekaði í síðari ræðu sinni. Það var spurningin um hvort það sem hann kallar njósnastarfsemi eigi sér stað enn þá og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir tók skýrt af skarið um það í ræðu sinni áðan að svo er ekki.

Hvað var fyrir 50 árum, hvaða markmið menn settu sér og hvort þeir náðu þeim eða ekki held ég að enginn í þessum sal geti sagt til um. Það er rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga frekar en umræðuefni fyrir þingmenn, með fullri virðingu fyrir hv. þm. Þráni Bertelssyni. (Gripið fram í.) Þetta er áhugavert efni. Þetta er að sjálfsögðu eitthvað sem sagnfræðingar hljóta að rannsaka, þetta er nokkuð sem menn hljóta að ræða þegar slíkar rannsóknir liggja fyrir en ég leyfi mér að efast um að Alþingi í dag sé rétti vettvangurinn til að ræða þetta frekar en starfsemi annarra stjórnmálaflokka sem líka hefur verið tekin til umfjöllunar í nýlegum ritum sagnfræðinga, eins og kunnugt er, og má m.a. sjá á jólabókalistanum fyrir þessi jól.

Þetta er svarið við þessu. Ég ætlaði upphaflega, hæstv. forseti, að taka til máls um fjárlagafrumvarpið í tilefni af ummælum sem hér féllu áðan. Tíminn til þess er takmarkaður en ég verð að játa að þær fregnir sem hríslast um þingið um alls konar breytingartillögur einstakra manna og hópa í stjórnarliðinu sem von mun vera á vekja furðu, nú daginn fyrir 3. umr. 3. umr. um fjárlög á að fara fram á morgun samkvæmt þingsköpum og enn erum við flestir þingmenn í talsverðu myrkri um það hvernig breytingartillögur meiri hlutans munu líta út við þá umræðu (Forseti hringir.) sem er afar óþægilegt í ljósi þess að við þurfum að taka afstöðu til þeirra.