139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[12:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því þegar fólk hefur áhuga á sagnfræði, það er afskaplega mikilvægt að stúdera söguna til að læra af henni. Ef menn eru hins vegar að líkja Sjálfstæðisflokknum við ógnarstjórnir kommúnista og fasista hafa viðkomandi aðilar einfaldlega ekki lesið nokkurn skapaðan hlut um það og vita ekkert um hvað þeir eru að tala. Úr því að menn eru að tala hér um jólabækur hvet ég þá til að skoða sömuleiðis bókina Sovét-Ísland eftir Þór Whitehead. Þar er fjallað um flokka sem bera að vísu ekki sama nafn núna en sem eru forfeður og í beinan ættlegg hjá þeim vinstri flokkum sem hér eru, Samfylkingunni og Vinstri grænum. Að sjálfsögðu ber það fólk sem er hér í þeim flokkum ekki ábyrgð á því sem gerðist þá en það er afskaplega mikilvægt, virðulegi forseti, að fara nákvæmlega yfir söguna, stúdera hana og læra af henni. Það er ótrúlegt hvað hlutirnir endurtaka sig í sögunni.

Ég vildi hins vegar líka ræða hér um umferðarmálin. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við förum vel yfir þau mál, hvaða verkefni við erum að fara í, og ég vek athygli hv. þingmanna á frétt sem kemur fram í Morgunblaðinu í dag um þau ánægjulegu tíðindi að færri dauðaslys hafa orðið núna en á sama tíma í fyrra. Alvarlegast slösuðum fjölgar þó verulega á milli ára. Umferðaröryggismálin eiga að vera útgangspunktur þegar við erum að leggja fram áætlanir og framkvæmdir í umferðarmálum. Ég þarf ekkert að útskýra hversu alvarlegt það er þegar einhver fellur frá í blóma lífsins, því síður hvað það er alvarlegt þegar fólk slasast alvarlega (Forseti hringir.) og ég hvet hv. þingmenn núna, enda met ég það svo að það sé samstaða um að fara yfir samgöngumálin út frá þessu sjónarhorni.