139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig bjartsýni að ætla að ræða um framtíð íslensks háskólasamfélags á 30 mínútum, hvað þá að gera því efni góð skil í fimm mínútna ræðu. Ég tel engu að síður mikilvægt að ræða framtíðarskipulag háskóla landsins og hefja um leið umræðuna um menntastefnu þjóðarinnar. Háskólarnir hafa upp á síðkastið þurft að þola mikinn niðurskurð. Í raun má segja að lítil umræða hafi farið fram um þá staðreynd, bæði í sölum Alþingis og úti í þjóðfélaginu. Umræðan er samt brýn því að lykillinn að uppbyggingu samfélagsins er einmitt í háskólum landsins. Þess vegna þarf að byggja þá upp með skipulögðum hætti, þeir eru grunnurinn að framtíðinni.

Það liggur einnig fyrir að samkvæmt hagtölum verður að skera meira niður og hagræða í menntakerfinu á næstu árum. Það þarf að móta skýra framtíðarstefnu um hvernig það verður gert. Við viljum ekki lenda í sömu sporum og við lentum í í haust þegar boðuð var ný stefna í heilbrigðismálum þjóðarinnar án umræðu, án samráðs og að mínu mati án allrar gagnrýninnar hugsunar. Slík vinnubrögð viljum við ekki sjá aftur og þess vegna er enn mikilvægara að ræða framtíðarstefnu háskóla landsins.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á menntakerfinu á háskólastigi. Nýir háskólar hafa orðið til og ég er þeirrar skoðunar að tilkoma þeirra hafi styrkt og bætt almennt háskólanám. En ekki bara það, margir þeirra hafa skapað sér mikla sérstöðu og eru framarlega á heimsvísu í málefnum sem varða Íslendinga miklu. Má þar nefna t.d. forustu Háskólans á Akureyri í kennslu í málefnum sem varða norðurslóðir og orkufræðum en þar liggja sóknartækifæri framtíðarinnar. Einnig má nefna tilkomu Háskólans í Reykjavík sem hefur náð miklum og góðum árangri og um leið hrist upp í á margan hátt stöðnuðu háskólakerfi, en ljóst var að hefðbundið háskólanám skorti gagnrýni á eigin starfsvettvangi. Það sama má segja um Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólann á Hólum, allir hafa þeir sannað réttinn fyrir tilveru sinni og hver og einn er mikilvægur á sinn hátt.

Það er ekki þar með sagt að háskólasamfélaginu megi ekki breyta. Ég er þeirrar skoðunar að við getum enn bætt það og um leið nýtt betur þær krónur sem við leggjum til þess. Það verður að gera úttekt á því hvernig nemenda þjóðfélagið þarfnast og hvort gæði og þær kröfur sem við gerum til háskólamenntaðra einstaklinga hafi minnkað eða aukist. Við eigum til að mynda að horfa til þess að við eyðum miklum fjármunum til nýsköpunar hér á landi og stöndum fremst í flokki þjóða hvað það varðar. Samt skilar sú nýsköpun sér ekki eins og við vildum í nýjum atvinnutækifærum. Þörfin fyrir vísindafólk, uppfinningamenn, fólk með raungreinaþekkingu, tæknimenntaða einstaklinga, svo fáir hópar séu nefndir, hefur aldrei verið meiri að mínu mati. Við þurfum að framleiða okkur út úr kreppunni og í vísindunum liggur grunnurinn.

Við þurfum líka að spyrja gagnrýninna spurninga eins og hvort það gangi í svo fámennu samfélagi að vera með tvö kerfi, opinbera háskóla og einkarekna háskóla. Við greiðum jafnmikið til beggja kerfanna og í raun aðeins meira til nemenda sem vilja mennta sig í einkareknum háskólum. Að mínu mati gengur þetta ekki upp. Við verðum að finna leið út úr skólagjöldunum, finna leið til að samstilla krafta háskólanna. Við verðum einnig að horfast í augu við þá staðreynd að það að kenna sams konar nám beggja vegna í Vatnsmýrinni gengur ekki til langframa.

Fyrir ekki svo löngu skipaði menntamálaráðherra samráðsnefnd í hinum opinberu háskólum. Nefndinni er ætlað að leita leiða um hvar megi auka samráð og samstarf hjá stofnununum og það er sú lína sem virðist koma frá menntamálaráðuneytinu. Um leið og ég lýsi yfir ánægju með það fyrirkomulag vil ég beina því til hæstv. menntamálaráðherra að þetta samstarf verður að auka. Einkareknu háskólarnir verða að taka þátt í samráðinu og allir verða að vera undir sama hatti hvað það varðar.

Um leið og ég fagna og hvet til aukins samráðs og samstarfs er ekki þar með sagt að ég sé fylgjandi sameiningu háskólanna. Í raun sé ég ekki hvað það ætti að hafa upp á sig. Styrkur hvers háskóla, hvar sem hann er staddur á landinu, er sjálfstæði hans. Því megum við ekki breyta. Aðeins þannig verður til heilbrigð samkeppni innan háskólasamfélagsins sem er að mínu mati nauðsynleg til framþróunar. Sameining tveggja háskóla mun að mínu mati aðeins leiða til niðurlagningar þess minni þegar fram líða stundir. Sporin hræða hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Samkvæmt lögum hefur hæstv. menntamálaráðherra vald til að móta framtíð háskólasamfélagsins hér á landi. Það er mikil ábyrgð því fylgjandi. Ég tel því mikilvægt að fá sýn hennar á hvert skuli stefna til framtíðar, einnig hvort tilefni er til að skoða hvort þjóðin hafi efni á að halda úti tveimur kerfum opinberra og einkarekinna háskóla og hvort ekki megi auka samstarfið og samræðuna þar á milli. Þá langar mig að spyrja hvort hún telji ekki tilefni til að gerð verði ítarleg úttekt á því hvernig nemendur er best að útskrifa úr háskólunum að teknu tilliti til þarfa samfélagsins. (Forseti hringir.)

Það er von mín að þessi stutta utandagskrárumræða verði upphafið að langri umræðu um hvernig háskólasamfélag við viljum sjá á Íslandi næstu árin og að sú umræða muni fyrst og fremst byggjast á gagnrýninni hugsun. (Forseti hringir.) Ég tel fulla þörf þar á því að grunnurinn að framtíð þjóðarinnar liggur í vel menntaðri og upplýstri þjóð.