139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Hvað varðar síðasta atriðið sem hann nefndi held ég að fjármögnunarkerfi íslenskra háskóla krefjist sérstakrar umræðu því að fjármögnun háskólanna er háttað á mismunandi veg. Það er full ástæða til að ræða það. Svíar hafa til að mynda flesta sína skóla opinbera en tiltekna einkarekna skóla líka sem allir eru styrktir af opinberu fé að megninu til og innheimta þar af leiðandi ekki gjöld. Þar gilda bara ákveðnar reglur. Norðmenn hafa farið aðra leið þannig að við getum tekið umræðu um þau mál og rætt það hvert við viljum stefna. Ég veit líka að það er kallað eftir því að fjármögnunarkerfi háskólans sé rætt í þessu heildstæða samhengi.

Fólk hefur rætt um gæði og ég get tekið undir margt þar. Við erum að vinna eftir stefnu Vísinda- og tækniráðs hvað varðar gæðamál, til að mynda með skipan gæðaráðs erlendra sérfræðinga sem nú hefur verið skipað. Það nýtur stuðnings af innlendri ráðgjafarnefnd þar sem ætlunin er einmitt að fela þessu gæðaráði erlendra sérfræðinga sem allir hafa gríðarlega reynslu á þessu sviði að halda utan um gæðaúttektir og eftirlit með íslensku háskólastarfi.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir gerði sérstaklega að umtalsefni akademískt frelsi. Það er eitt af því sem við þurfum að hafa sérstaklega í huga á niðurskurðartímum. Við getum litið til annarra ríkja sem eru stödd í miðri kreppu rétt eins og við, t.d. skoskra háskóla sem eru að skera niður álíka mikið og við, og breskra þar sem sú leið hefur verið farin að skera niður tilteknar greinar, t.d. háskólanám í listum um allt að 40% og hækka skólagjöld á móti. Það er miðstýrð ákvörðun stjórnvalda að það sé ekki hagkvæmt, sem ég tel mjög vafasama stefnumótun og áherslu, og láta það sama gilda um öll hug- og félagsvísindi. Á svona tímum þurfum við virkilega að hugsa um akademískt frelsi, hvernig við getum tryggt sjálfræði stofnana til að rannsaka og kenna út frá akademískum sjónarmiðum en ekki stjórnvaldsákvörðunum. Það held ég að sé mikil og krefjandi áskorun fyrir okkur sem stjórnvöld og okkur sem þingmenn að takast á við. Það er auðvitað eitt af (Forseti hringir.) lykilatriðunum í allri stefnumótun í háskólamálum, ekki síst á niðurskurðartímum.