139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[13:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir framsögu hans fyrir málinu og góð orð í minn garð. Það er rétt að ég hef við umræðu um þetta mál, bæði í 1. og 2. umræðu, lýst ákveðnum áhyggjum af því að verið væri að verja fjármunum til byggingar nýrrar stofnunar á sama tíma og skorið væri niður víða í ríkiskerfinu. Það má segja að við meðferð málsins í nefndinni hafi einmitt komið fram þau atriði sem hv. þingmaður vakti athygli á í framsöguræðu sinni, þ.e. um eðli þessa bundna höfuðstóls og þeirra ráðstafana sem honum fylgja.

Í þessu sambandi eru auðvitað ýmsar spurningar sem kalla á frekari umræðu en tengjast kannski ekki sérstaklega þessu máli. Í fyrsta lagi er auðvitað deila eða ágreiningur, eins og við þekkjum víða í kerfinu, um þessa bundnu ráðstöfun tiltekinna ríkistekna, þ.e. þegar ríkistekjur eru innheimtar sérstaklega til ráðstöfunar í þágu ákveðinna málaflokka eða stofnana. Við þekkjum það úr ýmsum tilvikum öðrum að fjármálaráðuneytið, sérstaklega og oft á tíðum hv. fjárlaganefnd, hefur haft þá tilhneigingu að færa þetta frekar í þann farveg að í öllum tilvikum sé um að ræða tekjur sem bara renna í ríkissjóð og síðar teknar sjálfstæðar ákvarðanir um ráðstöfun á fjárlögum, peningarnir safnist í rauninni bara í einn sjóð og síðan sé valið hvernig úthlutað verði úr honum frekar en að fjármunirnir séu bundnir með lagaákvæðum til tiltekinna verkefna.

Í mjög mörgum tilvikum hefur mat löggjafans verið að rétt sé að hafa gjaldstofna eyrnamerkta með þessum hætti. Svo hefur verið í tilviki brunavarnagjaldsins sem er stofninn á bak við þetta byggingaröryggisgjald sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það er rétt að það hefur skýrst, m.a. vegna orðsendinga og upplýsinga frá umhverfisráðuneytinu og fjármálastjóra þess, Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur, hvernig málum er háttað í þessu tilviki. Það breytir töluvert ásýnd málsins hvað þetta atriði varðar.

Eins og hv. formaður nefndarinnar gat um er um að ræða eyrnamerkt gjald sem ekki á að hækka við þá breytingu sem lögð er til með þessu frumvarpi, bæði á heiti stofnunarinnar sem gjaldið rennur til og heiti gjaldsins sjálfs. Um er að ræða sömu gjaldprósentu. Breytingin felst hins vegar í því sem er afleiðingin af þessu frumvarpi, nái það fram að ganga, að heimilt verður að ganga á þennan bundna höfuðstól sem engu að síður mun halda áfram að bætast við í, eftir því sem upplýsingar okkar kveða á um. Þær 100 milljónir sem hafa verið til umræðu hér eru auðvitað þannig til komnar. Ég verð að játa og leyfi mér að koma þeirri ábendingu á framfæri að kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er ekki mjög glögg hvað þetta varðar þegar klikkt er út í frumvarpinu sjálfu með þeim orðum að um sé að ræða auknar fjárveitingar úr ríkissjóði upp á 100 milljónir. Það hefur auðvitað mótað svolítið umræðuna um þetta atriði.

Annað atriði sem hv. þm. Mörður Árnason gat réttilega um er sú niðurstaða nefndarinnar að draga til baka þær breytingartillögur sem lagðar voru fram fyrir 2. umr. og gerðu ráð fyrir tilfærslu á eftirliti með tilteknum rafföngum sem nú eru að hluta til hjá Brunamálastofnun og hluta til hjá Neytendastofu. Tillögur nefndarinnar, eins og hv. þingmenn muna fyrir 2. umr., gerðu ráð fyrir að þetta raffangaeftirlit færðist allt til hinnar nýju Byggingarstofnunar en nefndin komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum í fyrradag, hygg ég endanlega, að leggja slíka breytingu ekki til að svo stöddu. Hvað þessi atriði varðar er í raun og veru ekki um að ræða neina breytingu frá frumvarpinu þegar við göngum til 3. umr. eins og það var lagt fram af hæstv. umhverfisráðherra, en sú breyting sem umhverfisnefnd lagði til fyrir 2. umr. er dregin til baka. Við höfum fjallað nokkuð um þetta mál í umhverfisnefnd. Eins og fram kemur í nefndaráliti höfum við heyrt rök með og á móti breytingunni. Við umræður um málið hef ég haft tilhneigingu til að líta svo á að það sé eðlilegt að þetta, hvað eigum við að segja, faglega eftirlit með rafföngum sé á einum stað og að sú stofnun sem hafi yfir að ráða sérþekkingu á þessu sviði sinni eftirlitinu. Rafmagnseftirlit er sérhæft fag sem krefst sérþekkingar og eðlilegt væri að hafa það á einum stað.

Ég felst hins vegar alveg á þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir um að fresta þessu vandamáli, ef við getum kallað það svo, fresta því að taka afstöðu til þessa álitaefnis akkúrat núna. Þetta atriði snertir ekkert endilega kjarna eða megintilgang þessa frumvarps þannig að það raskar engu í frumvarpinu sem slíku þó að það sé tekið út og geymt. Ég held að þetta kalli engu að síður á lausn, að leiða þurfi málið til lykta.

Eftir að hafa, eins og sjálfsagt margir aðrir nefndarmenn, farið svolítið fram og til baka í vangaveltum mínum um þetta atriði er ég kominn aftur á byrjunarreit og tel að heppilegra sé að framtíðarfyrirkomulag hins sérhæfða eftirlits með rafföngum sé á einum stað. Neytendastofa hefur mikilvægt hlutverk varðandi almennt markaðseftirlit. Það er að mínu mati ekki endilega í því fólgið að Neytendastofa þurfi að hafa yfir að ráða sérhæfðri þekkingu á einstökum sviðum eða þeir aðilar sem taka að sér hið sérhæfða eftirlit, sem gæti verið Byggingarstofnun í þessu tilviki, þ.e. Mannvirkjastofnun. Hún gæti tekið þetta verkefni að sér þó að önnur atriði sem lúta að Neytendastofu og framtíðarfyrirkomulagi hennar, hlutverki, fjármögnun og öðrum slíkum þáttum þyrfti jafnframt að leysa til frambúðar. Þó að umhverfisnefnd hafi hvorki verksvið né upplýsingar til að taka á því máli sýnist okkur flestum, held ég, eftir þessa yfirferð að betur þurfi að búa um hnútana og tryggja að því starfi sem vissulega á að vera fyrir hendi hjá stofnun á borð við Neytendastofu sé sinnt vel og vel sé að því búið lagalega og varðandi fjármögnun og aðra slíka þætti. En að láta hluta rafmagnseftirlitsgjaldsins renna þangað er ekki endilega einhver framtíðarlausn sem á að ráða niðurstöðunni um þessi atriði.

Ég fer ekki nánar út í þetta. Nefndin hefur verið nokkuð samstiga í afgreiðslu þessa máls og er það áfram. Það er auðvitað þannig að þegar mikill lagabálkur af þessu tagi er tekinn til afgreiðslu getur komið til þess að einhver atriði kalli á endurskoðun, en ekki er unnt eða raunhæft að ætlast til að öllum steinum verði velt við í umfjöllun þingsins um þessi atriði. Við verðum bara að sjá hver reynslan verður af þessu máli þegar það er komið í framkvæmd. Ég hef svona færst frá því í umfjöllun málsins að hafa haft talsverðar efasemdir um málið í það að verða frekar jákvæður í garð þess og tel að það sé í rauninni mjög margt í því sem horfir til bóta. Ég lýsi því hins vegar yfir, svona fyrir mína hönd, að komi til þess að við þurfum að taka einhverja einstaka þætti í þessum lagabálki til endurskoðunar mun ég vera reiðubúinn til þess leiði reynslan í ljós rökstuddar forsendur til að ganga til slíkra breytinga.