139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar ráðuneyta.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson og Unni Kristínu Sveinbjarnardóttur frá forsætisráðuneyti.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á heitum ráðherra og ráðuneyta í ýmsum lögum til samræmis við lög sem við samþykktum í sumar, um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, en þau mæltu fyrir um stofnun innanríkisráðuneytis á grunni dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, og stofnun velferðarráðuneytis á grunni félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.

Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur ekki í sér efnislegar breytingar eða tilfærslu verkefna milli ráðuneyta. Innanríkisráðuneytið fær öll verkefni dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og velferðarráðuneytið fær öll verkefni félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd, er samþykkur því áliti sem hér er lagt fram.