139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[14:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist út af þessu máli. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að frumvarpið er meira afgreiðslumál út af hinu fyrra sem er stóra málið, sameining ráðuneyta sem var unnið í gríðarlegum flýti á haustþingi. Svo ég reki söguna þá er hugmyndin með haustþingi sú að ef ekki næst að klára ákveðin mál á vorþingi er það unnið á sumarmánuðum og síðan gengið frá lausum endum, þ.e. lagasetningunni á septemberþingi.

Í þessu tilfelli var málið svo sannarlega ekki klárað á vorþingi, þ.e. sameining ráðuneyta. Sérkennileg eða við skulum segja fátækleg gögn lágu til grundvallar. Það var vísað í skýrslu helsta fræðimanns ríkisstjórnarinnar, dr. Gunnars Helga Kristinssonar, sem hann vann sérstaklega fyrir forsætisráðuneytið. Úttektin frábað sér alla ábyrgð á þeirri vinnu og sagði þar orðrétt, ef ég man rétt, virðulegi forseti, að það þyrfti að skoða útfærsluna á málinu miklu betur. Það var heitið samráði og samvinnu yfir sumartímann og því fullkomlega sleppt en síðan í óðagoti var hægt að klára það á septemberþinginu.

Síðan ætla menn að ganga frá hlutum eins og nafnabreytingum, menn skyldu ekki gera lítið úr nafnabreytingum. Ég spurði fyrir ári síðan, held ég að það hafi verið, hvað nafnabreytingar á ráðuneytum hefðu kostað ríkissjóð. Það veltur á milljónum. En menn hafa ekki bara verið í skipulagsbreytingum heldur er nöfnum líka breytt ótt og títt á ráðuneytunum. Ég held ég fari rétt með, virðulegi forseti, að við séum með mannréttindaráðuneyti. Við erum held ég ein af þremur þjóðum í heiminum sem eru með ráðuneyti með því heiti. Hinar tvær þjóðirnar eru í Afríku. Ég man ekki alveg, virðulegi forseti, hvort það er Síerra Leóne eða hvaða þjóðir það eru sem nota þetta nafn. Það er aukaatriði enda eru menn að fara að breyta, ef ég skil rétt, nafninu á mannréttindaráðuneytinu aftur þannig að það nafn var notað í skamman tíma. Ætli það hafi ekki verið í tvö ár, eitthvað slíkt?

Það sem er athyglisvert í þessu er að þegar menn fóru í þessar breytingar lá það í orðunum að áhugi væri að taka smærri ráðuneytin og sameina þau, virðulegi forseti. Vegna þess að þetta væru svo litlar einingar sem hefðu ekki burði til þess að takast á við hin ýmsu verkefni. Þetta eru málefnaleg rök. Ég held að við getum alveg komist að þeirri niðurstöðu að sum ráðuneyti á Íslandi eru afskaplega lítil. Ef við skoðum fjárlögin sem eru einn mælikvarði er efnahags- og viðskiptaráðuneytið með 3,2 milljarða samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs. Iðnaðarráðuneytið er með 4,7 milljarða, umhverfisráðuneytið með 6,9 milljarða og utanríkisráðuneytið með 10,9 milljarða. Þetta er allt lítið, virðulegi forseti, í ljósi þess að fjárlögin 2011 eru 514 milljarðar. Maður mundi þá ætla að þessi dvergráðuneyti væru sameinuð. Svo er aldeilis ekki. Þessi ráðuneyti eru öll til staðar og verða áfram án þess að verða sameinuð.

Stóru ráðuneytin voru sameinuð, risaráðuneytin. Þau eru tvö langútgjaldafrekust. Annars vegar félags- og tryggingamálaráðuneytið og hins vegar heilbrigðisráðuneytið. Fyrir árið 2011 var félags- og tryggingamálaráðuneytið með 121 milljarð og heilbrigðisráðuneytið með tæpa 100 milljarða, saman eru þau með 221 milljarð. Ef við tökum vaxtagjöldin frá er þetta um helmingurinn af ríkisútgjöldunum. Þessi risaráðuneyti voru sameinuð en dvergráðuneytin, efnahags og viðskipta, iðnaðar og umhverfis, þau halda sér í óbreyttri mynd.

Til að setja þetta í samhengi, virðulegi forseti, geta menn skoðað þetta á datamarket.is. Það er góður vefur sem er upplýsandi. Þetta er sambærilegt og ef ráðuneyti væri sett utan um heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Hún er nokkurn veginn með sömu upphæð og iðnaðarráðuneytið. Dettur einhverjum í hug að það gæti verið skynsamlegt? Ég held að svarið sé nei, það hvarfli ekki að neinum.

Menn hljóta því að spyrja: Þetta er ekki umfangið sem gerir það að verkum að menn vilja sameiningar, hvað er það sem kallar á sameiningu þvert á það sem lagt er upp með, þ.e. stóru ráðuneytin eru sameinuð en litlu látin halda sér? Rökin voru þau að það væru svo mikil samlegðaráhrif vegna þess að það væri svo margt sem gæti farið saman. Það væru svo mikil tækifæri í sameiningu stofnana og ýmislegt annað. Ókei, gott og vel, skoðum það.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið er tiltölulega nýtt fyrirbæri. Það var sett á laggirnar ef ég man rétt í ársbyrjun 2008. Hver var breytingin þá? Jú, áður fyrr var þetta félagsmálaráðuneytið en tryggingamálin voru færð úr heilbrigðisráðuneytinu, sem áður var heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Hver voru rökin, virðulegi forseti? Jú, það var bent á það augljósa að tryggingamálin áttu ekki mikið sameiginlegt með heilbrigðismálunum, áttu miklu meira sameiginlegt með félagsmálunum. Þess vegna voru sveitarstjórnarmálin tekin úr félagsmálaráðuneytinu af því að þau áttu ekkert heima þar og úr varð hreint heilbrigðisráðuneyti. Þar var fyrst og fremst verið að einbeita sér að heilbrigðismálunum enda hefur þótt mikið skorta á stefnumótunarþáttinn í heilbrigðismálunum fram til þessa. Þó það hafi náðst mælanlegur árangur í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hvað þetta varðar, getur enginn mælt gegn styttingu biðlista, tökum á rekstri stofnana sem heyrðu undir ráðuneytið, lækkun lyfjakostnaðar og öðru slíku. Þetta hefur farið í sama farið aftur þó svo að ráðuneytið hafi bara verið með heilbrigðismálin sem er að vísu ekkert bara, það er gríðarlega stór málaflokkur.

Þessir sömu aðilar og tala núna eru búnir að beita sér fyrir því að þetta sé sameinað. Þeir töluðu fyrir því á sínum tíma, fyrir nákvæmlega þremur árum, virðulegi forseti, að skipta upp heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í heilbrigðisráðuneyti annars vegar og setja tryggingamálin í félags- og tryggingamálaráðuneytið með þeim rökum að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið eitt og sér væri of stórt. Tryggingamálin ættu heima í félagsmálunum og félagsmálin og heilbrigðismálin ættu ekki mikið sameiginlegt. Enda sjá það allir að heilbrigðismál og félagsmál eru ekki sami hluturinn og reyndar fer því víðs fjarri.

Nú áttu stjórnarliðar í miklum vandræðum með að útskýra þetta í þeirri litlu umræðu sem varð á septemberþinginu. Það var hins vegar upplýst af núverandi formanni hv. heilbrigðisnefndar, hv. þm. Þuríði Backman, að það væri svo mikið af gögnum og skýrslum sem væri verið að vinna í ráðuneytunum um sameiningu stofnana þvert á ráðuneyti að það væru helstu rökin fyrir þessu og þetta var undir lok umræðunnar. Ég fór fram á það við hæstv. forsætisráðherra að fá þessar upplýsingar. Ég man ekki hvað margar vikur eða mánuði það tók að fá upplýsingarnar. Það er nú þannig með hæstv. forsætisráðherra að gagnsæið er eingöngu í orði en ekki á borði. Ég man ekki hvað ég var búinn að taka þetta oft upp hér á háu Alþingi áður en ég fékk svar frá ráðuneytinu, sem er um margt áhugavert og ég er með það hér, virðulegi forseti, ég hef ekki sýnt þetta áður. Það ber yfirskriftina: „Breytingar sem í skoðun eru á verkefnum ráðuneyta og stofnana“. Síðan eru nokkur verkefni tilgreind.

Það sem vekur athygli, virðulegi forseti, er að það eru engin verkefni þvert á félags- og tryggingamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, nákvæmlega ekkert. Það sýnir hið augljósa. Ef menn eru með einhverjar slíkar hugmyndir er ekkert búið að hugsa út í þær, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það eru engin málefnaleg rök fyrir því að sameina risaráðuneytin en láta dvergráðuneytin standa ein og sér. Ef þessi mál eru skoðuð sjá menn að ef það eru málefnaleg rök fyrir því að sameina félags- og tryggingamálin og heilbrigðismálin í eitt ráðuneyti hafa málefnaleg rök ekki komið fram hér á háu Alþingi. Stjórnarliðar hafa ekki haft fyrir því.

En jafnvel, virðulegi forseti, þó svo að fram kæmu einhver málefnaleg rök sem menn þyrftu þá að fara yfir og skoða, því þetta er ekkert smámál, mundu allir komast að þeirri niðurstöðu að tímasetningin er fullkomlega galin. Það hefur komið í ljós. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því hversu mikill vandræðagangurinn er í heilbrigðismálum þjóðarinnar, eins og staðan er núna, sé að það er nógu erfitt, virðulegi forseti, að sameina ráðuneyti þó að menn þurfi ekki í ofanálag að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna með minni fjármuni milli handanna. Það verkefni er á borði hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann er að vísu ekki bara með öll heilbrigðismálin heldur er hann sömuleiðis með málefni félags- og tryggingamálaráðuneytisins, þ.e. lífeyristryggingar, Atvinnuleysistryggingasjóðinn, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fæðingarorlofið, málefni fatlaðra, öldrunarstofnanir, Framkvæmdasjóð aldraðra, Barnaverndarstofu, Tryggingastofnun ríkisins og ýmislegt annað, Íbúðalánasjóð t.d. og svona ýmis smámál.

Virðulegi forseti. Á meðan er dvergráðuneytið í umhverfisráðuneyti með Endurvinnsluna og Úrvinnslusjóð, Umhverfisstofnun og Veðurstofuna og ýmislegt annað. Með fullri virðingu fyrir þeim merku verkefnum mundi ekki nokkur einasti maður sem kæmi að því að skipuleggja stjórnkerfi lands, skipta hlutunum upp með þessum hætti. Annars vegar ertu með hjá einu ráðuneyti u.þ.b. helming af ríkisútgjöldunum og síðan ertu með ráðuneyti með umfang upp á örfáa milljarða. Það mundu allir sem kæmu að því máli og veittu ráðgjöf segja: Heyrðu, væri nú ekki skynsamlegt að taka þessi litlu ráðuneyti og sameina þau? Síðan mundu stærri ráðuneytin einbeita sér að stóru verkefnunum sem fram undan eru í þessum viðkvæmu málaflokkum.

Þetta er því miður dæmigert fyrir ríkisstjórnina. Ætli þetta sé ekki verkstjórnin sem menn töluðu um að væri svo nauðsynleg? Ég held að þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins töluðu um mikilvægi styrkrar verkstjórnar hafi þeir ekki útskýrt fyrir fólki hvað það þýddi í rauninni. Það þýðir að það er vaðið áfram oftar en ekki án hugsunar eins og í þessu máli. Síðan er vonast til þess að þetta reddist einhvern veginn. Að lokum gengur maður undir manns hönd á elleftu stundu til að reyna að bjarga málunum. Það er gert núna í þessum mikilvæga málaflokki, heilbrigðismálum. Ein ástæðan fyrir því að við erum svo fá í þingsalnum er sú að þingmenn eru í bakherbergjum, ekki reykfylltum því það er búið að banna reykingar í þinginu, til þess að plotta um það hvernig eigi að skipta fjárlögunum og þá sérstaklega í heilbrigðismálunum.

Nú er enginn vafi á því að upplagið sem var lagt upp í fjárlögunum í heilbrigðismálunum var illa undirbúið, illa ígrundað án nokkurs samráðs eða samvinnu við aðilana sem best þekkja til og eiga að framkvæma. Því miður er núna á síðustu dögum þingsins, í þessum málaflokki, ekki unnið út frá faglegum forsendum heldur kjördæmistengdum forsendum. Þannig vinna menn þetta núna. Ég þekki það ágætlega vegna þess að ég hef t.d. verið að spyrjast fyrir og sent skriflegar fyrirspurnir fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Ég dreg þá ályktun og gef mér þá forsendu að í langflestum tilfellum hafi hæstv. ráðherra ekki ætlað að vera með útúrsnúning eða að svara ekki spurningum. Það getur ekki verið annað en að þetta sé út af gríðarlegum önnum og skipulagsleysi í viðkomandi ráðuneytum sem geri það að verkum að svörin við fyrirspurnunum eru oftar en ekki röng. Ég veit að þetta er sama með aðra hv. þingmenn, í það minnsta er það í mínu tilfelli vegna þess að ég veit betur. Það er almenna reglan að ég hef ég þurft að fylgja fyrirspurnunum eftir því þetta eru hreinar staðreyndavillur. Það ber ekki saman upplýsingum sem koma fram í svörum hjá mér og upplýsingum sem komu frá ráðuneytunum fyrir nokkrum vikum eða mánuðum síðan. Þá er verið að spyrja um sömu hlutina.

Virðulegi forseti. Við horfum á mikinn pólitískan vanda á Íslandi í dag. Við þekkjum stjórnarstefnuna, við ræddum það lítillega áðan út af skattpíningarstefnu hæstv. ríkisstjórnar að frá 1. febrúar til 1. október á þessu ári hafa skuldir heimilanna hækkað um 16 milljarða. Það er einn þátturinn, annar þátturinn er sá að það eru ekki aðeins hækkaðir skattar á fólki heldur komið í veg fyrir að fólk geti unnið með atvinnustefnu sem gengur aðallega út á það að koma í veg fyrir að fólk geti unnið eins og við þekkjum.

Síðan, þegar snýr að þeim málum sem við köllum velferðarmál, eru hlutirnir unnir eins og raun ber vitni. Þeir eru illa unnir og hlutirnir eru gerðir enn þá erfiðari fyrir þá sem eiga að vinna þetta með hæstv. ráðherrum og ríkisstjórn. Verkefnið er stórt og erfitt en í ofanálag fá þeir það verkefni að sameina tvö langstærstu ráðuneytin. Það er þvert á allar hugmyndir sem lagt var upp með. Rökin sem lögð voru fram, að það ætti að sameina svo mikið af stofnunum á milli ráðuneyta og það væri allt saman í undirbúningi, eru bara hrein og klár ósannindi sem eru sögð úr ræðustól þingsins til þess að bjarga sér fyrir horn í viðkomandi umræðu. Það er kaldhæðnislegt að síðan er vísað í álitsgjafa, máli sínu til stuðnings, sem mega varla opna munninn án þess að minnast á mikilvægi faglegra vinnubragða.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en vakið athygli á þessu. Þetta er eitt af þeim málum sem eru ekkert sérstaklega pólitískt sexí en þau eru gríðarlega mikilvæg, virðulegi forseti. Ég vil í það minnsta hafa komið upp og vakið athygli á þessu. Ég varaði við þessu. Því miður hafði ég rétt fyrir mér. Við munum sjá fram á erfiðleika þessum málum tengd. Það er því miður þannig, virðulegi forseti.