139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

302. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir um margt mjög athyglisverða og málefnalega ræðu. Fram kom sú spurning eða sú fullyrðing í ræðu hv. þingmanns að ekki væri rökstutt með neinum áþreifanlegum hætti hvað það væri sem kallaði á sameiningu þessara ráðuneyta. Án þess að ég vilji fara beinlínis út í efnislega umræðu í tengslum við frumvarpið sem við ræðum nú um það mál sem við afgreiddum í þinginu eftir allnokkuð vandaða meðferð í september vil ég bara ítreka að það er mitt mat og margra annarra að Stjórnarráðið á Íslandi sé of stórt, of svifaseint og ástæða sé til að draga úr umfangi þess og stærð. Ég held niðurstaðan í rannsóknarskýrslu Alþingis hafi á sínum tíma verið sú að stjórnsýslan hafi að mörgu leyti brugðist. Það er og var mín upplifun, enda var ég starfandi í Stjórnarráðinu á þeim tíma, að þar hefði margt getað betur farið ef samskiptin hefðu verið markvissari á milli ráðuneyta og ef meira samstarf væri á milli þeirra.

Svo er líka umhugsunarefni fyrir þá sem hlusta á þessa umræðu að velta fyrir sér hvað það er sem hv. þingmaður á við þegar hann talar um risaráðuneyti í þessu samhengi. Samkvæmt mjög óvísindalegri skoðun minni á netinu eru starfsmenn í félagsmálaráðuneytinu 45 og í heilbrigðisráðuneytinu 60. Þá er ég bara að telja þá sem taldir eru upp á heimasíðum. Það gætu verið einhverjir fleiri sem mér er ekki kunnugt um en ég held að þetta séu u.þ.b. þær stærðir sem um ræðir þegar hv. þingmaður talar um risaráðuneyti. Þetta eru ekki stærri einingar en svo þó að vissulega sé fjármagnið sem þau ráða yfir mikið en það er það hvort eð er fyrir í mjög litlum ráðuneytum.