139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er sannleikurinn loksins kominn í ljós. Það er enginn forsendubrestur varðandi hugmyndafræðina eins og allir vita, hefur ekkert með það að gera. Það er bara stefna Vinstri grænna, (Gripið fram í.) hún er ofan á. (Gripið fram í: Nú, er það?) Hér ljóma andlit hv. þingmanna Vinstri grænna því nema hvað — (ÞBack: Er það ekki forsendubrestur ef það er hugmyndafræði?) Það hefur nefnilega ekkert með forsendubrest varðandi hugmyndafræði að gera, þetta hefur ekkert með fjárhagslega hluti að gera eða stofnanirnar. Nei, nú hafa Vinstri grænir valdið stórfelldum skemmdarverkum á heilbrigðiskerfinu í tvö ár og áfram skal haldið. Og Samfylkingin ætlar að gleypa það.

Það var reyndar stefna Samfylkingarinnar að fara þessa leið og ég hvet menn til að taka eftir því að loksins — þetta kom ekki fram í hv. heilbrigðisnefnd — loksins kemur þetta fram. Þetta er auðvitað enginn forsendubrestur varðandi hugmyndafræði, þetta hefur ekki með tæknilega hluti fyrir stofnanirnar að gera. Nei, menn ætla að hverfa frá kostnaðargreiningu, það er það sem menn ætla að gera, vegna stefnu Vinstri grænna.

Þá er spurningin, virðulegi forseti, og það er ekkert smástór spurning og þetta þurfum við að ræða og fá niðurstöðu í: Ef menn ætla ekki að fara í kostnaðargreiningu eins og er gert alls staðar á Norðurlöndunum og þeim löndum sem við berum okkur saman við, og ég fer betur í það í ræðu minni, hvað á þá að ráða? Virðulegi forseti. Hvað ræður þá hjá þessari ríkisstjórn þegar menn útdeila peningum til heilbrigðismála? Menn ætla ekki að vinna þetta faglega, ekki læra af reynslu annarra þjóða. Norræna velferðarstjórnin ætlar ekki að læra af félögum sínum á Norðurlöndunum. Hvað liggur þá til grundvallar? Er það kjördæmapot, virðulegi forseti, eða hvað er það?