139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ætlum að læra af Norðurlöndunum og það er gott að fara í kostnaðargreiningu og það er gott að nota kostnaðargreiningu til hins ýtrasta þar sem það á við. Það á mjög vel við á sjúkrahúsum eins og Landspítalanum. Það á ekki eins vel við við flestar þær heilbrigðisstofnanir sem við rekum í landinu. Aftur á móti er mjög gott að hafa kostnaðargreiningu á bak við slíkan rekstur. En að það sé uppfært með kaup og sölu í huga eins og um Landspítala eða háskólasjúkrahús væri að ræða og byggt á þeirri hugmyndafræði að með því að kostnaðargreina alla hluti og hafa þá uppfærða sé í raun og veru mjög gott að koma starfseminni á markað, það á ekki eins vel við.

Ég tek undir með hv. þingmanni að gott er að hafa þessa greiningu. En stofnanirnar hafa ekki gert hana nema í mjög litlum mæli, Landspítalinn hefur gert hana vegna starfsemi sinnar og ég tel að mjög gott sé að stuðla að því að Landspítalinn haldi því áfram og að greiðslur til Landspítalans byggist að mestu leyti á þeirri greiningu.

Eins hvað varðar sérfræðinga, sjálfstætt starfandi sérfræðinga, þar held ég að DRG-greiningin eigi mjög vel við. En hvað varðar lungann af þeirri þjónustu sem heilbrigðisráðuneytið semur við, þá má ekki rugla því saman, hv. þingmaður, að við erum að fresta þeim samningum sem snúa að heilbrigðisstofnunum en ekki sérfræðingum og ekki sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Við erum að ræða um heilbrigðisstofnanirnar. Hvað varðar það að allar þjóðir hafi tekið þetta upp, það er ekki rétt, (Gripið fram í.) og að þetta sér fyrirmyndin á Norðurlöndunum, þetta er á sumum sviðum. Við skulum vanda okkur við þetta og hvorki ráðuneytin né stofnanirnar eru tilbúin til þess núna. Þá skulum við bara fresta þessu og gera þetta vel.