139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst ekki um einstakt mat. Þetta snýst um það hvort menn haldi áfram og framfylgi þeim lögum sem samþykkt voru af þinginu. Það hefur komið fram og hv. þingmenn hafa borið því við, og hraðinn er nú slíkur að hv. þm. Þuríður Backman, jafnvandaður einstaklingur og hún er, las upp úr frumvarpinu í staðinn fyrir að lesa upp úr nefndarálitinu og er það svolítið dæmigert fyrir vinnubrögðin í þessum málum.

Upphaflega var því haldið fram, virðulegi forseti, að ástæðan fyrir því að menn gætu ekki farið þessa leið væri forsendubrestur varðandi hugmyndafræði. Það hefur verið hrakið. Sömuleiðis var sagt að stofnunin Sjúkratryggingar Íslands væri ekki tilbúin. Það hefur líka verið hrakið. Þá er ég að vísa í það sem kemur fram í nefndaráliti okkar beint upp úr minnisblaði forstjóra Sjúkratrygginga um að það eigi eftir að ganga frá samningum við Tryggingastofnun og sömuleiðis eigi eftir að flytja til stofnunarinnar starfsmenn frá m.a. heilsugæslunni, Landspítalanum og aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins sem halda eiga áfram þessari vinnu sem hefur verið stopp og snýr að aukinni kostnaðargreiningu í heilbrigðiskerfinu.

Ef menn vilja hins vegar fara þá leið að ræða um einstakar tegundir kostnaðargreiningar, hvort sem það er RAI-mat, DRG eða annað slíkt, þá er það ekki aðalatriði þessa máls (Gripið fram í: Jú.) og það hljóta menn að skilja. Þær fullyrðingar sem hér var haldið fram um að það hefði orðið forsendubrestur varðandi hugmyndafræðina standast ekki. Fullyrðingarnar um að Sjúkratryggingar væru ekki tilbúnar í þetta standast ekki. Það hefur verið farið yfir það hér og ef menn vilja fara í einhverja útúrsnúninga í þessu máli þá gera menn það en það er þeirra val.