139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef aðeins fylgst með þessari umræðu núna, ég gerði það raunar frá upphafi, og ég verð að segja alveg eins og er að mér dauðbrá. Ég hélt allt í einu að hér hefði sloppið inn í frumvarpið einhver byltingarkennd hugmynd um breytingar á heilbrigðisþjónustunni, hér ætti ekki lengur að stefna að heimsklassaþjónustu, hér væri verið að rífa allt og tæta eftir að ákveðinn ráðherra hætti.

Ég veit bara ekki hvaðan ég kem eða hvert ég er að fara í þessu máli. Það er verið að breyta einu einasta atriði og það er að í lögunum sem sett voru árið 2008 var talað um að Sjúkratryggingastofnun ætti að gera samninga við opinbera aðila. Þarna er verið að fresta því eina ákvæði. Það er ekki verið að breyta lögunum á einn eða neinn annan hátt. Ástæðan fyrir þessu er sú að menn hafa ekki náð að byggja Sjúkratryggingastofnun upp með þeim hætti sem upphaflega var ætlað. Þessi heimsklassaheilbrigðisþjónusta var öll til áður en Sjúkratryggingastofnun varð til. Mig vantar því ansi miklar skýringar frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Var það virkilega þannig þegar við settumst niður og samþykktum lögin um Sjúkratryggingastofnun að ef það hefði ekki verið gert hryndi heilbrigðiskerfið? Ég biðst undan svona málflutningi. Mér finnst þetta ekki mjög merkilegur málflutningur. Það er bara verið að taka opinberu stofnanirnar, það er fullt af þjónustusamningum, það er verið að gera þá alla áfram. Þeir eru gerðir eftir forskriftum frá ráðuneytinu þar sem Sjúkratryggingar gera þá samninga. Það er bara verið að fresta því sem til stóð í lögunum, að bæta við samningsgerð við opinberu stofnanirnar.

Enginn ágreiningur er um aðra hluti, það er engin stefnubreyting boðuð í þessu frumvarpi eða neitt slíkt. Það er bara þannig að áramót koma alltaf reglulega og það er ekki búið að vinna þessa vinnu. Það hefur verið upplýst hér í umræðunni að það eru ýmsar ástæður fyrir því. Ég frábið mér að verið sé að útmála þetta sem einhverja heimsbyltingu. (Forseti hringir.) Þetta er afar einföld lítil aðgerð sem frestast um ótilgreindan (Forseti hringir.) tíma og er í höndum ráðuneytisins að vinna úr.