139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að með þeim samþykktum sem við gerðum árið 2008 hafi verið einhver dulin markmið hjá hv. þingmanni sem mér voru ekki ljós. Þegar rætt er um stefnubreytingu verða menn auðvitað að skoða það út frá því máli sem hér er til umræðu. Það er aðeins verið að flytja mál um eitt atriði sem er að Sjúkratryggingum sem ber samkvæmt lögum að gera samning við ákveðnar stofnanir og að því ákvæði verði frestað. Af því geta menn dregið ótal ályktanir eins og þeir vilja. Ég ætla ekki að fara dult með það að ég hef sagt að það þurfi að skoða þessi uppskipti á milli stofnananna sem hafa ekki gengið eftir með eðlilegum hætti. Það þarf að vinna úr því. Það hefur ekki unnist á þessum tveimur mánuðum.

Ég kallaði fram í áðan: Hvað tók það langan tíma þegar stofnunin var sett á fót, af hverju var þetta ekki búið? Það verða aðrir að upplýsa um það. Ég bið menn bara um að gera ekki meira úr þessu máli en það er og að vera ekki að keyra það út eins og hér hafi orðið bylting í heilbrigðisstefnu. Hv. þingmaður verður að skýra það betur út fyrir mér hvað hann átti við með því.