139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir réttilega að hópurinn sem ákvæði frumvarpsins ná til sé óskilgreindur. Hann er þó að nokkru skilgreindur vegna þess að við vitum að árangurslaus fjárnám á árunum 2003 og til dagsins í dag hafa verið milli 4.500 og 5.500 á ári. Árangurslaus fjárnám eru undanfari gjaldþrotaskipta. Hins vegar er það þannig að einungis 113 einstaklingar voru teknir til gjaldþrotaskipta á þessu ári og síðasta. Eftir upplýsingunum sem við höfðum aflað okkur er það fyrst og fremst vegna vanskila á skatti, sem er út af fyrir sig refsivert athæfi, sem tekið er á í refsivörslukerfinu og lýtur öðrum lögmálum en venjulegar kröfur sem verið er að koma til móts við í þessu máli. Þó eru einstaklingar sem hafa verið teknir til gjaldþrotaskipta og voru í fremstu röð í íslensku viðskiptalífi og gerendur í útrásinni og bankahruninu sem hafa verið teknir til gjaldþrotaskipta. Þeim mun nýtast úrræðið afar vel verði það lögfest.

Ég tel að það liggi fyrir í ljósi þessara talna sem ég nefndi áðan að venjulegir kröfuhafar, bankar og fjármálastofnanir munu ekki sjá sér hag í því að krefjast gjaldþrotaskipta yfir einstaklingum í venjulegu skuldamáli vegna þess að það þarf að leggja út 250 þús. kr. tryggingu fyrir hvern einstakling. Ef það er eitthvað að marka tölurnar óttast ég að þróunin verði sú að frumvarpið (Forseti hringir.) hjálpi þeim ekki sem eru hjálparþurfi heldur komi þeim best sem síst skyldi.