139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kemst á vissan hátt að rótum vandans sem við erum og höfum verið að glíma við í þessum efnum síðustu tvö árin. Það hefur verið gríðarlega erfitt að átta sig nákvæmlega á fjölda einstaklinga eða fjölskyldna sem um ræðir og eiga í miklum greiðsluerfiðleikum eða skuldavanda. Hv. þingmaður nefnir töluna 4.500 árangurslaus fjárnám á tilteknu tímabili. Við höfum horft upp á í kringum 100 gjaldþrot. Ég held að í mörgum tilfellum sé verið að grautast í, ef ég má nota það orðalag, sömu einstaklingunum eða sömu fjölskyldunum. Það geta verið margvíslegar kröfur á sama einstaklinginn sem hugsanlega er með á sínum snærum fleiri en eitt íbúðarhúsnæði eða íbúðir. Vandinn við að skilgreina nákvæmlega hversu há talan er er mikill. Menn hafa reynt að nálgast það. Seðlabankinn fékk heimild á síðasta ári til þess að taka saman upplýsingar og tölur, sem hann sendi frá sér í mars eða apríl sl., voru fróðlegar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram og kynnt til sögunnar frumvarp sem ég hef hugsað mér að styðja eftir fremsta megni. Það felur í sér að veita stjórnvöldum úrræði sem nauðsynleg eru til þess að safna saman og draga saman upplýsingar sem eru fyrir í kerfinu þannig að hægt sé að bregðast við hinum raunverulega vanda, að menn hafi haldgóða þekkingu á aðgerðum sínum.