139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir framsögu hans fyrir meirihlutaálitinu. Ég er ekki með á meirihlutaáliti allsherjarnefndar vegna þess að þarna er skoðanaágreiningur.

Eins og kom fram í máli þingmannsins er frumvarpið lagt fram til þess að gera tilraun til að taka utan um ákveðinn skilgreindan hóp, eins og þingmaðurinn fór yfir og talaði um akkúrat með þessum orðum. Það er nefnilega neyðarúrræði að fara í gjaldþrot eins og flestir vita. Ég er hrædd um að frumvarpið veki upp væntingar hjá ansi mörgum þar sem markmið frumvarpsins er að stytta frestinn sem fólk þarf að búa við fari það í gjaldþrot. Því miður virðist það vera svo, eftir mikla rannsóknarvinnu, að frumvarpið stangast á við stjórnarskrá og hæstaréttardóma sem hafa fallið um þessi mál upp á síðkastið.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar láta kröfuhafar sér yfirleitt duga að fara í árangurslaust fjárnám og stoppa þar við og eira því sem eftir er þannig að fólk þarf ekki að fara leiðina sem hið íþyngjandi úrræði er, að fara í gjaldþrot. Þess vegna langar mig til að spyrja í framhaldi af þessu. Í frumvarpinu er lagt til að það sé 250 þús. kr. trygging fyrir skiptakostnaði sem fólk þarf að reiða af höndum. Er þingmaðurinn ekki hræddur um að þeir sem fara þessa leið, að fara í gjaldþrot, eigi upphæðina inni á bankabók til að geta reitt fram sé það vilji einstaklingsins að fara þessa leið en ekki kröfuhafans? Ég vil líka minna hv. þingmann á að úrræðið til gjafsóknar var stórkostlega skert af norrænu vinstri stjórninni í fyrra. (Forseti hringir.) Tilmælin sem þingmaðurinn vísaði í, að beita yrði dómsmálaráðherra til að hjálpa fólki með þetta, (Forseti hringir.) voru tekin út í fyrra.