139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég kemst næst er sá veruleiki sem við lifum við núna þannig að fólk þarf að leggja þessar 250 þús. kr. fram, það er ekki verið að leggja það til með þessari breytingu.

Úr ræðu hv. þingmanns vil ég sérstaklega bregðast við þeirri fullyrðingu að þetta stangist á við stjórnarskrá. Það var ekkert sem benti til þess við meðferð nefndarinnar á málinu sem var m.a. sent til umsagnar hjá réttarfarsnefnd. Fulltrúar úr forsætisráðuneytinu komu líka margsinnis á fund nefndarinnar og það var farið af afar mikilli vandvirkni yfir málið eins og hv. þingmanni er kunnugt um. Það var ekkert mál núna í haust sem við eyddum jafnmiklum tíma í og þetta tiltekna mál, það veit ég að hv. þingmaður tekur undir með mér. Tíminn sem við höfum eytt í það er umfangsmikill, enda er þetta þannig mál að það skiptir mjög miklu að vanda til verka.

Eins og ég hef áður sagt er einfaldlega verið að stytta þann tíma sem það tekur fyrir fólk að rísa aftur á fætur eftir að hafa neyðst til þess — eins og þingmaðurinn nefnir svo réttilega — að fara í það algjöra neyðarúrræði að lýsa sig gjaldþrota í stað þess að áður giltu mismunandi tímafrestir, fjögur ár, tíu eða tuttugu. Nú er þessi frestur settur niður í tvö ár og ef fyrningunni er ekki slitið á þeim tíma fellur krafan úr gildi.

Ef einhver telur sig hafa sérstaka hagsmuni af að halda kröfunni við getur hann leitað til dómstóla og útskýrt fyrir þeim hvers vegna hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fyrningunni verði ekki slitið. Ég tel gríðarlega mikilvægt fyrir fjöldann allan af Íslendingum að hafa þetta í bakhöndinni.