139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[17:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum orðum hv. þingmanns og fagna því líka að enn sé fyrir hendi sú víðtæka samstaða í þingsölum um mikilvægi þess að greiða leið fólks út úr fjárhagslegum erfiðleikum. Þetta verkefni okkar verður viðvarandi. Við höfum náð miklum árangri á undanförnum missirum að mörgu leyti en við höfum líka lent í ákveðnum erfiðleikum. Það er alveg ljóst í mínum huga að sú staða sem kom upp í kjölfar ábyrgðarmannadómsins þrengir mjög möguleika fólks til að nýta sér greiðsluaðlögunarúrræðið og önnur skuldavandaúrræði með fullnægjandi hætti. Ég held þess vegna að það sé mikilvægt að þetta frumvarp verði að veruleika því að ég er sannfærður um að það muni auka á samningsvilja kröfuhafa.

Núna í greiðsluaðlögunarferlinu mun umboðsmaður skuldara þurfa að stilla upp þannig plani að það sé ekki bara tækt fyrir kröfuhafana heldur sjái skuldarinn líka eitthvert vit í því að halda áfram á þeirri vegferð sem stillt er upp.

Við þurfum auðvitað líka að horfast í augu við að eins og staðan er í dag er gjaldþrot besta leiðin, langbesta leiðin. Það er langsamlega gáfulegast fyrir fólk að fara í þrot, hætta að borga af húsunum sínum, fela peninga og reyna þannig að hjálpa ættingjum sínum að standa í skilum við þriðja manns ábyrgðir o.s.frv. Við höfum ekkert gert til að breyta því og við komumst ekki mjög langt í að breyta því eins og staðan er. Að því leyti verðum við að horfast í augu við veruleikann, gjaldþrotaleiðin virðist vera sú leið sem hefur verið tæk. Það er mikilvægt að hún verði áfram opin því að við þurfum að knýja fram samningsvilja kröfuhafa, knýja fram samningsvilja í fjármálakerfinu og betri umgjörð um skuldaskilin í heild sinni.