139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:11]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég mun ekki tjá mig í mjög löngu máli um þetta frumvarp. Það er brýnt og hefur fengið talsverða umfjöllun. Það er gleðiefni að þetta sé væntanlega við það að verða að lögum, þetta mun bæta stöðu mjög margra, hundruða ef ekki þúsunda manna, sem hafa þurft að líða fyrir það að vera það sem ég mundi kalla einfaldlega fórnarlömb atvinnurekstrar sem hefur það að lifibrauði að endurvekja kröfur á nánast gjaldþrota fólk og þar með geta gert kröfur í framtíðaraflahæfi þess um ár og jafnvel áratugi. Það er orðið alvarlegt, einfaldlega með tilliti til venjulegra mannréttinda, þegar það er hægt og tímabært að breyta því.

Allsherjarnefnd fór mjög rækilega yfir málið og fékk til sín fjölda gesta, sérstaklega vegna ákvæða frumvarpsins um skilyrði fyrningarslita þar sem mjög margir, þar á meðal og sérstaklega ég, töldu að skilyrði fyrningarslita væru of óljós og byðu upp á of mikla möguleika til að slíta fyrningu. Allsherjarnefnd fór nokkuð marga hringi með það mál og niðurstaðan á endanum varð einfaldlega sú sem tekin er fram á bls. 3 í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er einnig tekið fram að auk þess að hafa sérstaka hagsmuni af rofi fyrningar með dómi verði kröfuhafi auk þess að sýna fram á að líkur séu til að hann fái kröfu sína greidda eftir að hafa fengið rof á fyrningu samþykkta fyrir dómi. Kröfuhafi hefur því sönnunarbyrðina fyrir því að líkur séu á greiðslu kröfunnar. Meiri hlutinn tekur fram að með því er ekki átt við lítinn hluta kröfunnar heldur alla kröfuna eða meiri hluta hennar.“

Þetta er nægilega skýrt í mínum huga og nefndarmanna til að málið gangi fram með þessum hætti og ætti að duga í þeim vafaatriðum sem upp koma eða ef kröfuhafar hafa hug á því að ganga sérstaklega hart fram gegn skuldurum, þeir þurfa þá að hafa ríkar og nægilegar ástæður til þess.

Annað mál sem mér fannst mjög mikilvægt í þessu snýr að því að ef einstaklingur telur það vænlegustu leiðina fyrir sig út úr mikilli skuldaklípu að óska eftir gjaldþroti á eigin búi getur hann óskað eftir því sjálfur. Það er gert ráð fyrir því í lögunum um gjaldþrotaskipti, en það kostar 250 þús. kr. Ég hef talsverðar áhyggjur af því vegna þess að fjöldi manna gengur um göturnar, er við störf í hinu svokallaða svarta hagkerfi og einfaldlega ekki til þess bært að reiða fram 250 þús. kr. til eins eða neins og verður kannski seint. Þess vegna getur slíkt orðið til þess að þetta fólk á ekki kost á þessari leið út úr fjárhagsvandræðunum og ekki þeirri leið sem þarf þó að vera til staðar til að fólk geti tekist upp á nýtt á við að byggja upp líf sitt á nýjum grunni, tveimur árum eftir gjaldþrot.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að áhrif þessarar reglu kynnu m.a. að vera þau að einstaklingar muni í auknum mæli óska eftir gjaldþrotaskiptum á eigin búi þar sem kröfuhafar hefðu minni hag af því að leggja fram slíka beiðni en nú er. Við slíka beiðni er nauðsynlegt að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði sem nú er 250 þús. kr. Nefndin fjallaði nokkuð um að vera kynni að vegna þessa kostnaðar gætu einstaklingar ekki látið lýsa sig gjaldþrota og reglan mundi því ekki ná markmiðum sínum um að færa skuldurum tæki til að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Telur meiri hlutinn að í samanburði við þá hagsmuni sem skuldari getur haft af gjaldþrotaskiptum geti sú fjárhæð ekki talist óyfirstíganleg, nema í þeim tilfellum sem bú er fyrirsjáanlega eignalaust eða mjög eignalítið og beinir meiri hlutinn því til ráðherra að láta kanna hvort unnt sé í slíkum tilfellum að mæta kostnaði við trygginguna.“

Eftir því sem ég best veit, frú forseti, er á valdi ráðherra að ákveða þennan kostnað með reglugerð og hér kemur greinilega í ljós að vilji nefndarinnar er að þessu sjónarmiði verði gefinn gaumur. Ég legg það til úr ræðustól Alþingis og hvet ráðherra til þess að hafa þetta mál ofarlega á verkefnalista sínum á næstu dögum, a.m.k. fyrir áramót, og koma fram með einhverjar verklagsreglur eða reglugerð um það hvernig hægt er að hleypa þeim einstaklingum sem þyrftu e.t.v. nauðsynlega á þessu úrræði að halda í það án þess að læsast inni vegna þess að þeir eigi ekki fyrir því. Þetta er með svipuðum hætti og virðist stefna í með dómskerfið, það er verið að hækka hér dómsmálagjöld sem mun, ef of langt er gengið, koma í veg fyrir að fólk geti nýtt sér dómstóla til að leita réttar síns vegna þess að það er orðið of dýrt. Fólk þarf yfirleitt að leggja út fyrir umtalsverðum lögfræðikostnaði líka í svoleiðis málum. Allar svona gjaldtökur geta orðið mjög varasamar með tilliti til réttarríkisins sjálfs og við verðum að gæta okkar á því að koma ekki í veg fyrir að íbúar landsins geti leitað réttar síns fyrir dómstólum.

Að öðru leyti en þessu ætla ég ekki að tala meira um þetta mál en óska því alls velfarnaðar og vona að það fari í gegnum þingið meira og minna hnökralaust ef hægt er og að það verði afgreitt sem fyrst.