139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þm. Þór Saari séum sammála um það að markmiðið með frumvarpinu sé gott og við viljum stefna að því að ná því markmiði, þ.e. að hjálpa venjulegu fólki sem er komið í ægileg fjárhagsvandræði.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að markmiðinu verði ekki náð með frumvarpinu sem við ræðum í ljósi þeirra talna sem fyrir liggja um fjölda árangurslausra fjárnáma á ári sem eru í kringum 5 þús. og eru undanfari gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotaskiptin eru ekki nema rétt rúmlega 100. Það er vegna þess að kröfuhafarnir sjá sér ekki hag í því að óska eftir gjaldþrotaskiptum yfir búum þessara einstaklinga, væntanlega vegna þess að þau eru eignalítil eða eignalaus. Að sama skapi er fjárhagsstaða þeirra sem í hluta eiga væntanlega þannig að menn eiga ekki fyrir því að óska eftir gjaldþrotaskiptum á eigin búi — hversu æskilegt sem það síðan er. Niðurstaðan verði því sú að frumvarpið muni kannski helst nýtast þeim sem maður mundi halda að síst skyldi, þ.e. þeim sem þegar hafa verið teknir til gjaldþrotaskipta.

Hverjir eru það? Það er ekki hinn venjulegi maður. Það eru ýmsir fyrrverandi forkólfar viðskiptalífsins og gerendur í útrásinni. Verði frumvarpið að lögum munu þeir að tveimur árum liðnum eftir skiptalok ganga frá borði skuldlausir. Venjulegi maðurinn er enn þá í sömu ömurlegu stöðunni með árangurslaust fjárnám á bakinu og aðstæður hans allar hinar sömu.