139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:25]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo sem alveg sammála því að þetta muni nýtast svokölluðum útrásarvíkingum. Ég er aftur á móti bjartsýnn á að sérstakur saksóknari muni ná tökum á þeim mönnum áður en varir, ég leyfi mér að trúa því þó að ég hafi vissulega efasemdir um að við búum enn í réttarríki, ef til vill hafi verknaðir þessara svokölluðu útrásarvíkinga verið þaulskipulagðir til að þeir gætu skaffað sér eigið fé með ólögmætum hætti þó að þeir verði e.t.v. innan tíðar lýstir gjaldþrota og fái lausn mála sinna þar.

Þessar 250 þús. kr. eru, eins og fram hefur komið, hugsanlega óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir mjög marga. Þess vegna er mikilvægt að ráðherra taki það til skoðunar hvernig megi annaðhvort afnema hann með einhvers konar gjafsóknarákvæðum eða einfaldlega lækka hann umtalsvert. Ég tel ekki að frumvarpið sem slíkt missi marks út af því ákvæði. Ég tel einmitt að þetta sé mikið framfaraspor. Þetta er framhald af svokölluðu lyklafrumvarpi sem mikið var barist fyrir í fyrra og var skotið allrækilega í kaf af mörgum. Þetta er e.t.v. lokaniðurstaðan úr því. Fólk hefur þá þann valkost, eftir að hafa lent í mjög miklum fjárhagslegum hremmingum, að geta einfaldlega sagt: Ég gefst upp, ég get ekki meira, ég er hættur þessu, ég get ekki staðið í þessu. Það getur þá einfaldlega yfirgefið allt sem það á og átt þess kost að byrja aftur eftir tvö ár.

Ég tel það vera bót á mannréttindum þessa fólks að ekki sé hægt að halda því endalaust í einhvers konar skuldafangelsi. Ég held að það skipti mestu máli þegar upp er staðið.