139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð frá utannefndarmanni. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. allsherjarnefnd og formanni hennar, Róberti Marshall, fyrir góða vinnu að þessu mikilvæga máli. Það er gaman að heyra hversu mikill samhljómur er í fólki úr öllum flokkum í umfjöllun um það. Þó að áherslur séu nokkuð breytilegar eru augljóslega allir sammála um það sem við höfum öll lengi vitað, að gengið hefur verið allt of hart fram gagnvart þeim liðlega eitt hundrað einstaklingum sem verða gjaldþrota á hverju ári. Unnt hefur verið að elta þá árum saman og endurvekja kröfur þannig að algjörlega óhæfilegt hefur verið. Fyrir alvarleg ofbeldisbrot fá menn tímabundna dóma en fyrir að verða fótaskortur á fjármálasvellinu hefur jafnvel verið hægt að elta fólk miklu, miklu lengur.

Það var því löngu tímabært að taka á þessu og fagnaðarefni að það sé gert. Þetta hefur líka haft í för með sér óhæfilega sterka stöðu kröfuhafa gagnvart skuldurum enda eðli málsins að hér er staða þeirra bætt. Mikilvægt er að leggja áherslu á að þótt hér séu settar skorður við því hversu lengi sé hægt að elta fólk er þetta ekki leið út úr fjárhagsvanda. Sá sem fer þessa leið er ekki laus allra mála. Þetta verður hluti af sögu þess sem í gegnum það fer og fylgir honum og getur gert honum erfitt um vik með ýmsum hætti síðar á lífsleiðinni. Lausn er þessi leið því ekki en fyrir þá sem neyðast til að fara í gjaldþrot er mikil lausn í því fólgin að þessi nýju tímamörk séu sett. Margir góðir sérfræðingar hafa verið fengnir til að fjalla málefnalega um frumvarpið. Ég kom aðeins að umfjöllun um það á sumarþinginu en þá var það ekki alveg tilbúið og ekki nægilega vel unnið til að hægt væri að afgreiða það þá, því miður.

Önnur ástæða er líka fyrir því að mikilvægt er að afgreiða málið, önnur en mannréttinda- og mannúðarsjónarmiðin gagnvart þeim sem eru í þessari hræðilegu stöðu. Það er sú efnahagslega nauðsyn að við í samfélaginu séum tilbúin til að taka áhættu og kannski ekki síst nýjar kynslóðir, ungt fólk sem er að koma úr skólum og út á vinnumarkað með nýjar hugmyndir og kraft til að byggja upp nýja hluti í íslensku atvinnulífi sem drífa áfram verðmætasköpunina, lífskjörin og velferðina í landinu. Í því samhengi eru það slæm skilaboð að svo ofboðsleg viðurlög séu við því að verða gjaldþrota, eins og verið hefur, að hægt sé að elta fólk árum saman og nánast út í hið óendanlega. Mikilvægur þáttur málsins eru því auðvitað þau skilaboð sem í því eru fólgin að í nútímasamfélagi á 21. öldinni sé það hluti af samfélaginu að menn taki þátt í atvinnulífi og taki áhættu. Það er eðli áhættu að farið getur illa en þá á ekki að elta þá einstaklinga út yfir gröf og dauða.

Ég vil síðan nota tækifærið til að þakka hæstv. dómsmálaráðherra sem flytur málið en sömuleiðis hv. þm. Lilju Mósesdóttur sem hafði forgöngu um að taka málið upp á vettvangi þingsins. Það var þarft verk. Ég þakka nefndinni aftur fyrir að skila því farsællega í höfn við þessa umræðu.