139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ásamt svo mörgum öðrum sem hér hafa tekið til máls í umræðunni um nefndarálit meiri hluta og minni hluta hv. allsherjarnefndar fagna ég því að frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra er komið úr nefndinni, og ekki bara komið út heldur hefur meiri hluti allsherjarnefndar samþykkt að útvíkka réttarbótina sem fólst í frumvarpi hæstv. ráðherra og láta það ná til þeirra sem hafa nú þegar farið í gegnum gjaldþrotaskipti.

Ég minni líka á að þetta frumvarp er ekki nýtt af nálinni. Annað sambærilegt var lagt fram á síðasta ári og á því frumvarpi var sú sem hér stendur flutningsmaður ásamt mörgum öðrum góðum fulltrúum úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Ég fagna því alveg sérstaklega að Samfylkingin hefur sannfærst um ágæti þessa frumvarps og er hluti af meirihlutaáliti hv. allsherjarnefndar.

Hér hafa átt sér stað mjög góðar umræður um vankanta á þessari réttarbót fyrir skuldara og þar hefur m.a. verið gagnrýnt að frumvarpið hafi vakið of miklar væntingar hjá skuldsettu fólki sem er í vandræðum með að greiða úr skuldum sínum. Ég er ósammála þeirri túlkun, ekki síst vegna þess að ég hef verið í sambandi við mjög marga einstaklinga sem hafa farið í gegnum gjaldþrot og lent í því að vera hundeltir af kröfuhöfum, ekki bara í nokkur ár heldur áratugi. Þetta fólk hefur beðið og innt mig eftir því með reglulegu millibili hvenær frumvarpið fari í gegn vegna þess að það sér þetta frumvarp sem einu leiðina til að komast aftur inn í samfélagið, verða að fullgildum einstaklingum og láta af því að reyna að sjá fyrir sér fyrir utan samfélagið, m.a. með svartri vinnu til að losna við kröfuhafa.

Ég tel þetta frumvarp líka hafa gefið fólki, sem hefur lent í algjörum forsendubresti eftir bankahrunið, tækifæri til að komast út úr stöðu sem það sér enga leið til að ráða við. Margt af þessu fólki hefur fyllst mikilli örvæntingu en hefur beðið í ofvæni eftir því að Alþingi klári og samþykki þetta frumvarp til að losna út úr stöðunni og hefja nýtt líf. Oft og tíðum eru þetta einstaklingar sem hafa misst vinnuna eftir bankahrunið og skuldirnar hafa hrannast upp. Það er engin önnur leið út úr þeirri stöðu en að óska eftir gjaldþrotaskiptum.

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að sú upphæð sem fólk þarf að inna af hendi til að fara í gegnum gjaldþrotaskipti er of há. Til samanburðar má geta þess að þegar tvö stórfyrirtæki renna saman þarf að greiða 250 þús. kr. fyrir þann samruna. Mér finnst því mjög mikilvægt að hæstv. dómsmálaráðherra taki alvarlega tillögu meiri hluta allsherjarnefndar um hvort ekki sé ástæða til að lækka þessa upphæð.

Varðandi afturvirkni frumvarpsins og þeirrar breytingartillögu sem allsherjarnefnd gerir á því held ég að öllum sé orðið ljóst að það er rangt að túlka eignarréttinn þannig að hann gangi á aflahæfi einstaklinga. Við vitum öll að eftir gjaldþrot eru engar eignir eftir í búinu, ef það voru yfirleitt einhverjar fyrir, og það eina sem stendur eftir er aflahæfi einstaklingsins. Aflahæfi er verndað af stjórnarskránni og er æðra eignarréttinum í henni þannig að ég tel ekki að þetta frumvarp ætti að fela í sér það mikla afturvirkni að Hæstiréttur dæmi að við höfum gengið of langt.

Hvað varðar þann möguleika að þessi réttarbót fyrir skuldara þýði að það verði hagstæðara fyrir einstaklinga að fara í gegnum gjaldþrot en greiðsluaðlögun fagna ég mjög svo orðum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að hann vonist til þess að greiðsluaðlögun taki bara eitt ár, þ.e. að skuldir sem fólk fær niðurfelldar og færast yfir á biðreikninga verði gerðar upp að einu ári liðnu. Ég tel mjög mikilvægt að þessari greiðsluaðlögun verði hraðað þannig að einstaklingar sjái sem fyrst til sólar og að við getum lagt að baki þetta mikla efnahagshrun og byrjað upp á nýtt sem einstaklingar og samfélag, bæði við að safna eignum og kröftum.

Þetta frumvarp og þessi bætta réttarstaða skuldara mun, eins og margoft hefur komið fram, bæta verulega samningsvilja kröfuhafa. Því spái ég reyndar að mun fleiri einstaklingar eða heimili muni vilja og sætta sig við að fara í gegnum greiðsluaðlögun, en ég veit þess mörg dæmi að einstaklingar eru afar ósáttir við þá samninga sem gerðir eru við kröfuhafa þegar þeir fara í gegnum greiðsluaðlögun, finnst þeir samningar ósanngjarnir og einhliða. Þessi ógn að geta óskað eftir gjaldþrotaskiptum mun auðvitað bæta umtalsvert samningsvilja kröfuhafa og samningsstöðu skuldara.

Að lokum vil ég líka aðeins fjalla um þá fullyrðingu sem heyrðist áðan um að þessi réttur mundi nýtast fáum einstaklingum af því að svo fáir einstaklingar hafa farið í gegnum gjaldþrot fram að þessu. Ástæðan fyrir því er sú að það hefur ekki verið mjög mikil réttarbót í því að óska eftir gjaldþrotaskiptum sem einstaklingar. Við getum átt von á því að mun fleiri einstaklingar óski eftir gjaldþrotaskiptum þegar þessi réttarbót fer í gegnum þingið og verður að lögum. Það helsta sem kæmi í veg fyrir að fólk færi þessa leið er hár kostnaður við að fara í gegnum slík gjaldþrotaskipti en það er vonandi nokkuð sem hæstv. dómsmálaráðherra mun endurskoða.

Ég fagna að lokum enn og aftur þessu nefndaráliti frá hv. allsherjarnefnd og lýsi því yfir að ég tel að þetta sé ein mikilvægasta réttarbótin sem við höfum samþykkt á þessu löggjafarþingi fyrir hönd skuldara.