139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[18:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vildi koma aðeins nánar inn á þetta um greiðsluaðlögunina sem úrræði, það má segja að á undanförnu rúmu ári eða einu og hálfu ári, tíminn hverfur frá manni við þessi störf, höfum við gengið út frá því að meginleiðin til að takast á við veruleg fjárhagsvandræði hjá einstaklingum og fjölskyldum sé greiðsluaðlögunin. Það er meginúrræðið sem hefur verið í boði og mér sýnist að svo verði áfram. Að minnsta kosti held ég að miðað við þær tillögur sem fram hafa verið lagðar og kynntar verði greiðsluaðlögunarúrræðið fyrst og fremst það sem hentar eða er í boði fyrir þá sem lenda í verulegum greiðsluvanda og skuldavanda.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, og auðvitað fleiri, að nálaraugað væri fullþröngt eins og þetta úrræði er hannað í dag. Og bara þannig að ég orði spurninguna aðeins skýrar en áðan vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hún gæti verið mér sammála um það. Síðan er annað mál að við hv. þm. Lilja Mósesdóttir getum verið sammála um að margt í því sem boðað hefur verið af öðrum aðgerðum er kannski efnisminna og ekki eins bitastætt og væntingar voru skapaðar um í þjóðfélaginu nú á haustdögum.