139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[19:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegu ræðu og þau sjónarmið sem hann reifaði þó svo að ég sé kannski ekki alveg hjartanlega sammála þeim. Hins vegar vék hann í máli sínu örlítið að orðaskiptum milli mín og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í umræðu um samkeppnislög í fyrri viku og mig langar til að taka fram í því sambandi eftirfarandi: Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2008 kemur fram að fyrir árið 2006 var verðlag á matar- og drykkjarvörum að jafnaði 64% hærra en það var að meðaltali í ESB-ríkjunum. Samkeppniseftirlitið taldi í þeirri skýrslu afar brýnt að gripið yrði til ráðstafana í því skyni að efla samkeppni og lækka verð til íslenskra neytenda.

Það eru þau sjónarmið sem ég geng út frá án þess þó, og það vil ég taka skýrt fram, að ég sé einhver sérstakur óvinur bændastéttarinnar eða hafi ekki trú á því að bændur muni pluma sig ef horft er til þess að endurskoða hvernig framleiðslu, milliliðum og beinu sambandi bænda við neytendur er hagað. Það getur vel farið svo að það sé til hagsmuna fyrir neytendur að hafa kerfið eins og það er í dag. Ég ætla ekki að fullyrða að vegna eðli markaðarins, fákeppni og þess hversu fámennur íslenski markaðurinn er sé betra fyrir okkur að hafa skipulagið með þeim hætti sem það er í dag. En að einhverju leyti stöndum við frammi fyrir því að verðlag hér á landi er mörgum tugum prósenta hærra til neytenda en það er að meðaltali í Evrópuríkjunum. Við hljótum þess vegna að velta því fyrir okkur hvort það sé skipulaginu að kenna.