139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[19:11]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er þetta allt saman þörf umræða og ég held að við séum komin, miðað við hvað klukkunni líður hér, í ansi stórt mál ef við ætlum að fara að fjalla um þetta kerfi í heild. En ég er alveg tilbúinn til að taka þá umræðu hvenær sem er við hv. þm. Magnús Orra Schram.

Ég vil hins vegar segja að þetta er allt satt og rétt sem fram kom um samruna KS og Mjólkursamsölunnar. Það er, ef ég man rétt, 71. gr. búvörulaga sem heimilar samvinnu og verkaskiptingu fyrir afurðastöðvar í mjólk. Það er náttúrlega umdeilanlegt hvort þetta er sanngjarnt ákvæði en ég tel að þetta hafi verið til hagsbóta fyrir bæði neytendur og bændur og mundi gjarnan vilja að kjötgreinar eins og lambakjötsframleiðslan hefði notið slíkrar heimildar til að sameina afurðastöðvar sínar, en það er umdeilanlegt.

Af því að við hófum þessa umræðu út af orðum hv. þm. Magnúsar Orra Schrams á þá leið að það fyrirkomulag sem nú er hefði ekki verið til hagsbóta fyrir neytendur, vil ég minna á að ef maður skoðar umfang þessa fyrirtækis, Mjólkursamsölunnar, þá framleiðir það um 500 vörunúmer, það eru tugir nýrra vörunúmera á hverju ári. Fyrirtækið er gríðarleg öflugt og þjónustar innanlandsmarkaðinn mjög vel og er líka að verða öflugt í útflutningi.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa það með hér í lokin að bændur vilja svo gjarnan þjónusta íslenska neytendur eftir bestu getu og að sjálfsögðu viljum við reyna að bjóða þeim eins lágt verð og við mögulega getum. En allir þurfa að lifa og sanngjörn þurfa viðskiptin að vera. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)