139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

afgreiðsla fjárlaga.

[10:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Þessari ríkisstjórn er umhugað um að boða ný og breytt vinnubrögð, að hér þurfi allt að vera uppi á borðum og mikilvægt að gegnsæi sé mikið í öllum verkum. Er þetta meira í orði en á borði ef litið er til þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til og ég vil í þessum fyrirspurnatíma spyrja hæstv. forsætisráðherra sérstaklega um það vinnulag sem hefur verið viðhaft við gerð fjárlaga.

Látum liggja á milli hluta núna, þótt að sjálfsögðu sé ástæða til að spyrja nánar út í það, hvernig stendur á því að forsendur fjárlaga hafa verið á fleygiferð alveg frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram og hvernig stendur á því að ekki virðist vera stuðningur við fjárlagafrumvarpið í öðrum ríkisstjórnarflokknum, sem er afskaplega óvenjulegt og ég hygg að hafi aldrei gerst, að stjórnarþingmaður hafi með svo afgerandi hætti, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir, faktískt hafnað fjárlagafrumvarpinu eins og það liggur fyrir. (Gripið fram í: Þú manst eftir …) Mig langar nefnilega til að spyrja hæstv. forsætisráðherra um annað: Hvar á almennum markaði, í hvaða fyrirtæki eða á hvaða heimili væri hægt að fara yfir fjármál sín þannig að tekjuhliðin væri ekki til staðar þegar menn taka ákvarðanir? Í dag er 3. umr. um fjárlagafrumvarpið á dagskrá. Á morgun verða væntanlega greidd atkvæði um fjárlagafrumvarpið. Tekjuhlið fjárlaga er hins vegar enn þá í efnahags- og skattanefnd eftir 1. umr. Við skulum hafa í huga að fjárlagafrumvarpið sjálft hefur tekið gríðarlegum breytingum milli 1. og 2. umr. og nú berast fregnir af því að verulegar breytingar séu fyrir 3. umr. Þá má leiða líkur að því að tekjuhlið fjárlaga muni líka breytast mjög mikið þegar 3. umr. hefst, hvenær sem það nú verður, og ekkert bólar á því að málið komist út úr efnahags- og skattanefnd. Engin tíðindi eru af því að von sé á slíku í dag eða á morgun og það er augljóst að það þarf að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort henni finnist þessi vinnubrögð eðlileg. Er eðlilegt að standa að málum eins og (Forseti hringir.) hér er gert?