139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

kostnaður við nýjan Icesave-samning.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég held að það sé alveg ljóst, virðulegi forseti, að það þarf að fara ítarlega yfir þessa útreikninga, þessa 432 milljarða kr. Það er spurning hvað hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fær út ef hann reiknar út 6,7% samninginn (Gripið fram í.) fyrir tveimur árum. (Gripið fram í.) Þá held ég að ansi mörg núll muni bætast við hjá hv. þingmanni.

Ég hef ekki reiknað út þessa 110 milljarða kr. Samningamennirnir okkar hafa reiknað það út og sýnt fram á að munurinn er 110 milljarðar kr. (Gripið fram í.) og þá hefur þetta ekki verið núvirt. Ég var að segja það, virðulegi forseti, að við vorum ekki í stöðu til að fara í svona örar greiðslur eins og vaxtagreiðslurnar sem við getum gert núna en gátum ekki þá, m.a. af því að við höfum styrkt gjaldeyrisforðann. Við náðum því fram með mikilli hörku að fá AGS-endurskoðun, jafnvel þó að Icesave væri ekki komið, og það (Gripið fram í.) kostaði auðvitað sitt að ná því fram, kostaði mikinn tíma. Umhverfið er miklu hagstæðara, (Forseti hringir.) gengið er miklu hagstæðara, endurheimturnar eru miklu hagstæðari og allt þetta gerir það að verkum að við erum með hagstæðari samning í höndunum. [Háreysti í þingsal.]

Síðan vil ég endilega láta reikna hvað var á borðum (Forseti hringir.) rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem stjórnarandstaðan ýtti til hliðar af því að hún vildi endilega fá þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar vorum við með í höndunum (Forseti hringir.) samninga sem eru ekki langt frá þeim samningum sem við erum nú með í höndunum. [Frammíköll í þingsal.] (TÞH: Láttu endilega reikna það út.)