139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

aðstoð við þurfandi.

[10:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Jólin eru allmörgum ansi þung byrði og ekki mikið til af fjármunum í lok mánaðarins en margir vilja halda áramótin gleðileg í faðmi fjölskyldu og vina og geta boðið börnum sínum og fjölskyldu upp á t.d. góðan mat. Það er hins vegar erfitt þegar bæturnar koma ekki fyrr en á miðnætti 31. desember. Mig langar því til að skora á hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að beita sér fyrir því að örorku- og atvinnuleysisbætur verði greiddar út þann 30. desember 2010 ef ekki hefur nú þegar verið tekin ákvörðun um að gera það. Mig langaði að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort þetta hafi verið kannað, hvort þetta sé möguleiki. Jafnframt langar mig að spyrja hann út í frétt sem ég sá í gærkvöldi um að þau samtök sem úthluta mat séu á móti matarkortum. Hver eru rökin sem honum voru færð fyrir því? Hefur verið lagt til að það yrðu örari matarúthlutanir þannig að fólk þyrfti ekki að standa í svona löngum röðum og er ekki hægt að samhæfa þetta hjálparstarf við aðgerðir ríkisins varðandi þessi mál?