139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

aðstoð við þurfandi.

[10:47]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við hv. fyrirspyrjandi deilum áhyggjum af því að fólk komist ekki gegnum jól og áramót á mannsæmandi hátt því að öll viljum við að fólk geti haldið upp á þennan tíma með fullri sæmd. Við reyndum að grípa inn í þetta með þeim hætti sem við mögulega gátum. Hinn svokallaði þriðji geiri fundaði með félags- og tryggingamálaráðuneytinu, það var ráðstefna í heilan dag þar sem einmitt var reynt að samhæfa aðgerðir og vinna markvisst að því að ná utan um hverjir það eru sem mynda biðraðir og hverjir þurfa á aðstoð að halda. Síðan var leitað ýmissa leiða með hvaða hætti væri hægt að samhæfa þetta. Því miður náðist ekki verulegur árangur í því. Það voru skiptar skoðanir innan þessara samtaka um með hvaða hætti væri rétt að fara í þetta og þá var m.a. skoðað hvort hægt væri að færa sig yfir í matarkort eða annað.

Það sem við gerðum hins vegar, sem var gríðarlega mikilvægt að mínu mati, var að við settum inn 280 millj. kr. til að greiða út desemberuppbætur á atvinnuleysisbætur sem hefur ekki verið gert síðustu fimm árin. Svo er mikill slagur við tímann um að ná að borga það út fyrir jól sem mér finnst skipta mjög miklu máli.

Varðandi 30. desember hefur þessi umræða komið upp. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki spurst fyrir um hvernig staðan er nákvæmlega á því núna en mun spyrja í framhaldi af þessari fyrirspurn hvort hægt sé að hnika því til.

Varðandi málið í heild hafa sveitarfélögin líka greitt út desemberuppbætur og ég minni á, sem mér finnst vera mjög mikilvægt að skili sér í umræðuna, að desemberuppbætur eru greiddar á nánast allar bætur í kerfinu, þ.e. örorkubætur og annað slíkt. Það er upphæð sem nemur um 733 millj. kr. í desembermánuði fyrir utan þessar 280 millj. kr. sem fara til atvinnuleysisbóta sem eru hrein og klár viðbót akkúrat núna. Það er verið að bregðast við þessu með margvíslegum hætti og hjálparsamtökin hafa auðvitað gegnt þar mikilvægu hlutverki. (Forseti hringir.) Það er okkar verkefni með nýju ári að gera þetta enn betur og samhæfa þetta í framtíðinni.