139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

makríldeila við Noreg og ESB.

[10:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort það sé hugsanlegt að makríldeilan kunni að hafa einhver áhrif á viðræður okkar við Evrópusambandið um mögulega aðild Íslands. Það er erfitt að svara því á þessu stigi en það kann vel að vera að þegar fram í sækir muni það verka eins og möl í gangvirki. Ég er ekki viss um það. Ég tel að þessi deila sé mjög hefðbundin fiskveiðideila. Hún hófst með því að þegar makríllinn fór að ganga inn í efnahagslögsöguna í töluvert miklum mæli tóku Íslendingar sér kvóta eftir að ljóst var að það var ekki ætlast til þess að þeir kæmu að samningaborði. Við tókum okkur ríflegan kvóta en það er samkvæmt hefð til að ryðja okkur braut að samningaborðinu. Það tókst. Við náðum því að vera talin strandveiðiríki og settumst að samningaborðinu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við samningaborðið hlaut málflutningur okkar ekki mikinn hljómgrunn.

Hins vegar er ég viss um að hv. þingmaður veit það eigi að síður að það var himinn og haf á milli málflutnings Norðmanna annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Íslenskir samningamenn hafa greint frá því að þeir áttu mun jákvæðari tvíhliða fundi með Evrópusambandinu, eina þrjá, þar sem miklu meiri skilningur kom fram á okkar högum en af hálfu Norðmanna. Eigi að síður héldum við uppteknum hætti eins og við höfum gert í deilum af þessu tagi, við tókum okkur einhliða kvóta, gerðum það reyndar á undan Norðmönnum og Evrópusambandsríkjunum.

Að því er varðar þær hótanir sem hv. þingmaður nefnir hafa þær komið fram áður og þær hafa ekki til þessa vakið nein sérstök viðbrögð af okkar hálfu með formlegum hætti. Við höfum gefið yfirlýsingar um að við teljum þetta óheppilegt og á fyrsta stigi þess máls skrifuðum við bréf, ég og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, (Forseti hringir.) þar sem við töldum þetta ákaflega óheppilegt. Það er það. Það er barnalegt af hálfu Evrópusambandsins á þessu stigi að skaka skellum með þessum hætti en ég finn ekki að það hafi mjög mikinn stuðning (Forseti hringir.) utan Skotlands.