139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

makríldeila við Noreg og ESB.

[10:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hæstv. utanríkisráðherra segir að þetta kunni að hafa áhrif á samningaviðræður okkar við Evrópusambandið. Auðvitað hlýtur þetta að hafa áhrif að þessu leytinu vegna þess að það blasir við að á sama tíma og við erum að ræða um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur einn af framámönnum Evrópusambandsins í hótunum við okkur. Auðvitað hljótum við að taka það alvarlega þegar slíkar hótanir eru settar fram á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins. Vitaskuld eru þær settar fram til að hafa áhrif.

Þetta er augljós tilraun af hálfu Evrópusambandsins til að brjóta okkur á bak aftur. Þetta er tilraun til efnahagslegrar kúgunar sem við eigum að mæta af fyllstu hörku. Svar hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sínum tíma var gott en ég tel ástæðu til að íslensk stjórnvöld ítreki, ekki bara það að við teljum þetta óheppilegt, þetta er líka ósiðlegt og óboðlegt og það er ekki hægt að láta Evrópusambandið ganga fram með þessum hætti.

Við höfum ekki gengið á nokkurn hátt fram með óeðlilegum hætti í þessari deilu. Við höfum eingöngu óskað eftir þeim rétti (Forseti hringir.) sem okkur ber og við höfum hegðað okkur með ábyrgum hætti. Sá sem hegðar sér óábyrgt er Evrópusambandið nr. eitt, tvö og þrjú.