139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

velferðarkerfið.

[10:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum á síðustu dögum þingsins og þurfum við að afgreiða fjárlög sem eru augljósasta stefna ríkisstjórnarinnar til eins árs. Því langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra, þar sem ríkisstjórnin hefur stefnt að og lýst því yfir í löngu máli allt frá því hún tók við, í tvö ár, að menn stefni að norrænu velferðarsamfélagi, hvar þess sjái stað í fjárlögum næsta árs. Nú vitum við ekki nákvæmlega hvernig fjárlögin standa. Það er boðað að talsverðar breytingar verði í 3. umr. í dag. Mig langar að ræða við hæstv. forsætisráðherra um þá neikvæðu hluti sem við þekkjum frá norræna velferðarkerfinu, viðvarandi atvinnuleysi og bótakerfi, sem talsvert hefur verið til umræðu og við þekkjum þegar Íslendingar hafa farið þangað til þess að komast á bótakerfið.

Í fjárlagafrumvarpinu og í stefnu ríkisstjórnarinnar til lengri tíma höfum við, í stað þess að fá atvinnuuppbyggjandi umræðu, fengið inn frumvörp og stefnur um að lengja bótakerfið og lagfæra og fara í alls kyns úrlausnir á því. Ég held að það hefði verið áhugaverðara, skemmtilegra og betra og í anda þess að byggja upp norrænt stöðugt velferðarkerfi þar sem meiri sátt ríkir en á Íslandi. Að menn færu að byggja upp í atvinnumálunum í stað þess að skera niður í heilbrigðismálunum um allt land. Þá hefði verið áhugavert að stefnan sem ríkisstjórnin hefur talað um í heilsutengdri þjónustu og heilsutengdri ferðaþjónustu kæmi þannig fram að menn ætluðu sér að nýta alla heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðiskerfið á Íslandi til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar í stað þess að skera það niður, fjölga fólki á atvinnuleysisskrá og bótaþegum.

Mér fyndist áhugavert (Forseti hringir.) að við þingheimur veltum því fyrir okkur hvernig hin pólitíska arfleifð fyrstu vinstri ríkisstjórnarinnar undir stjórn jafnaðarmanna verður.