139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

velferðarkerfið.

[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kvíði ekki þeim dómi. Enginn í þessum sal eða annars staðar getur neitar því að við erum að glíma við erfiðasta efnahagsvanda sem nokkur ríkisstjórn hefur glímt við. Við höfum glímt við það í þessum mikla niðurskurði sem við erum í, þar sem við erum að tala um að við tökum við búi þar sem við þurfum að skera niður á þriðja hundrað milljarða með vexti sem voru á annað hundrað milljarðar sem við erum búin að ná verulega niður, að reyna eins og kostur er að hlífa velferðarkerfinu. Það á enginn jafnmikið undir því og sá sem hefur lítið milli handanna að tekið sé á efnahagsstjórninni þannig að verðbólga sé viðunandi og við getum náð niður atvinnuleysi. Hvort tveggja höfum við verið að gera. Verðbólgan var 18% þegar við byrjuðum en hún er að komast niður í 2–3%. Það skiptir verulegu máli.

Atvinnuleysi var spáð um 11%. Við erum að tala um atvinnuleysi um 7%. Stýrivextir hafa lækkað verulega sem skiptir máli. Og í fjárlagaafgreiðslunni má víða sjá stað, ég vona að menn fari í það í dag, að velferðarkerfinu hefur verið hlíft. Það er miklu minni niðurskurður í velferðarkerfinu, þá erum við að tala um menntamálin, félagsmálin og heilbrigðismálin, en annars staðar. Núna við 3. afgreiðslu á fjárlögum er verið að verðlagsbæta lágmarkstrygginguna í almannatryggingakerfinu um 2,3% og 350 millj. kr. sem skiptir verulegu máli.

Í fimm ár, líka í góðærinu þegar Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði, voru ekki greiddir jólabónusar til atvinnulausra. Núna er verið að greiða jólabónus til atvinnulausra sem kostar um 250 millj. kr. Fólk fær um 44 þús. kr., þeir sem mest fá, núna í jólamánuðinum. Það er líka verið að setja (Forseti hringir.) upp, sem menn munu sjá við 3. umr., viðbótarframlög inn í velferðarkerfið. Menn hafa staðið vörð um velferðarkerfið á þessum erfiðleikatímum eins vel og nokkur kostur er.