139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fjárlaganefnd fyrir þær tillögur sem hér eru lagðar fram, ekki síst tillögu að breytingum á lífeyri almannatrygginga til aldraðra og öryrkja sem hér liggja fyrir. Eins og kom fram í umræðu fyrr í dag eru til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd ýmis frumvörp er lúta að tekjuhlið og ráðstöfunum í ríkisfjármálum, m.a. upphafleg tillaga um að bætur almannatrygginga skyldu frystar á næsta ári eins og þessu. Það sjónarmið hefur verið uppi í þingflokkum stjórnarflokkanna að mikilvægt væri að reyna að koma til móts við þá hópa sem búa við lægstu og lökustu kjörin og reyna að tryggja að þeir fengju a.m.k. verðlagsbætur þó að ekki væri unnt að hækka allar bætur í landinu almennt. Er gott að fjárlaganefnd skuli hafa skapað svigrúm til að unnt sé að gera þær breytingar á frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum með þeirri tillögu sem hér var gerð grein fyrir. Ég legg þó um leið áherslu á það að að gengnum (Forseti hringir.) kjarasamningum er auðvitað nauðsynlegt að tryggja að þessir hópar fái sömu kjarabætur (Forseti hringir.) og fólk almennt í landinu.