139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. þm. Oddnýju Harðardóttur til hamingju með það að vera komin með málið út úr nefnd og líka að hafa komist nokkurn veginn ósködduð frá samskiptum sínum við Vinstri græna og þá aðallega órólegu deildina sem nefnist þessa dagana ýmsum nöfnum.

Í ljósi þessara vinnubragða langar mig til að spyrja hv. þingmann, ekki síst með það í huga að hv. þingmaður var í svonefndri þingmannanefnd Atla Gíslasonar sem skilaði af sér ákveðnu áliti um bætt vinnubrögð á þinginu: Hvernig ætlar hún sem formaður fjárlaganefndar að beita sér fyrir bættum vinnubrögðum innan fjárlaganefndar?

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann um samgöngumálin og fyrirætlanir í framkvæmdum sem áætlaðar eru á suðvesturhorninu og fyrir norðan: Telur hún, hvert er mat hennar á því, að þingið hafi fjallað nægilega mikið um þær breytingar sem hafa verið gerðar á fyrirætluninni? Hefur Alþingi tekið um þetta nægilega mikla umræðu og fjallað um þær breytingar sem hafa orðið á aðferðafræðinni við að (Forseti hringir.) koma af stað framkvæmdum á suðvesturhorninu?