139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka formanni fjárlaganefndar og oddvita stjórnarandstöðunnar þeirra framsöguræður sem báðar voru málefnalegar og góðar, góð yfirferð á þessu. Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að við deilum öll áhyggjum af því hvernig okkur gengur inn í framtíðina, hvernig mun takast til við að glíma við fjárlagagerð fyrir árið 2012 og síðan 2013. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé hægt að fullyrða að það verði auðvelt. Ég hef ekki breytt þeirri skoðun minni að við séum að fara í gegnum erfiðasta skaflinn núna, að þetta verði erfiðasta einstaka fjárlagagerðin, á margan hátt var þetta ekki létt 2009. Ég byggi það mat fyrst og fremst á árangrinum sem við höfum þegar náð og sannfæringu minni að forsendur fjárlaganna sem hér eru til umræðu séu tiltölulega traustar. Þá er eitt að gerast sem ekki verður horft fram hjá. Við erum að ná gríðarlegum árangri í því að ná heildarhallanum niður. Það er allt annað að glíma við 30–40 milljarða halla og hafa til þess tvö ár, vonandi leggst þá eitthvað með okkur í því, eða að sitja föst í 70, 100, 120, 140 milljörðum eða hvað það er. Það liggur algjörlega í hlutarins eðli að áhættan sem er í því fólgin er af allt annarri stærðargráðu. Það er minna í húfi í sjálfu sér hvort okkur miðar þá jafn vel áfram eða hægar eftir því sem undirliggjandi hallinn er orðinn minni. Það er einfaldlega minni skuldasöfnun og minni vaxtagreiðslur.

Af hverja að segja að forsendur fjárlaganna séu tiltölulega traustar? Jú, vegna þess að það er búið að reikna niður hagspárnar og byggt á þeim eins og þær standa í dag. Ég byggi það á því að tekjuáætlun yfirstandandi árs stenst. Haustmánuðirnir sem nú eru að koma í hús, þar á meðal sá síðasti, nóvember, sem ég hef verið að glugga í undanfarna daga, færa okkur betur inn á tekjuáætlun ársins (Forseti hringir.) en áður hefur verið sem við hljótum að telja góðar fréttir núna í aðdraganda þess að við leggjum inn í nýtt ár.