139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér kemur fjárlagafrumvarpið til 3. umr. Ég er talsmaður 2. minni hluta og hef lagt fram nefndarálit. Ég boðaði breytingartillögur við 2. umr. Ég held að samt sé vert að fara aðeins yfir þá stefnu sem við framsóknarmenn stöndum fyrir og endurspeglast í áhersluatriðum okkar. Breytingartillögurnar byggjast á hóflegri og ábyrgri miðjustefnu. Við höfum útfært í þeim leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs, örva hagvöxt og koma hjólum atvinnulífsins af stað. Þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og byggjast á hugmyndafræði vinstri flokka hafa því miður leitt af sér minni hagvöxt, rýrari tekjur og kólnun hagkerfisins.

Hvað útgjaldahliðina varðar leitumst við við að vernda velferðarkerfið. Við höfum gagnrýnt mjög hinn boðaða niðurskurð gagnvart heilbrigðisþjónustu landsmanna. Við teljum að þar megi ekki ganga lengra en hefur verið gert, fögnum reyndar því að töluvert hefur verið dregið til baka en gagnrýnum að stefnan sjálf um uppstokkun heilbrigðiskerfisins hefur ekki verið dregin til baka. Við höfnum þess vegna tillögum ríkisstjórnarinnar um breytingar í heilbrigðiskerfinu en munum heldur ekki taka undir tillögur hægri manna um aukinn niðurskurð í þá veru. Þá höfum við lagt áherslu á að komið verði til móts við þá tekjulægstu í þjóðfélaginu og við hörmum að ríkisstjórnin hefur dregið til baka loforð um að persónuafsláttur fylgi verðlagi og verði hækkaður um 3 þús. kr. Við leggjum til að staðið verði við þessi lögbundnu og skýru loforð sem ríkisstjórnin er því miður að draga til baka.

Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar sem voru til umfjöllunar í fjárlaganefnd fyrir 2. umr. og að teknu tilliti til þeirra tillagna sem meiri hlutinn gerði þá voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar um 466,4 milljarðar kr. sem var um 11 milljarða kr. lækkun frá frumvarpinu. Það er fyrst og fremst vegna þess að þjóðhagsspár eru verri en áður var talið. Heildarjöfnuður var talinn neikvæður um 34,1 milljarð kr. sem er 2,3 milljarða kr. minni halli en var á upprunalega frumvarpinu sem var lagt fram í haust.

Tillögur meiri hlutans núna lúta að því að tekjur hækka um 6,94 milljarða kr., þar vegur hlutdeild fjármálastofnana í sérstökum vaxtaniðurgreiðslum til heimila langmest, 6 milljörðum kr. Tekjuafkoma ríkissjóðs í A-hluta verður 37,3 milljarðar kr. Heildartekjur eru áætlaðar 472,5 milljarðar kr. og heildargjöld 509,8 milljarðar kr. Það er ágætt að minnast á það strax að þessar tekjur sem meiri hlutinn áætlar að muni hækka eru óútskýrðar, væntanlega skattbreytingar á lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki, jafnvel fleiri stofnanir, en þessi tekjuliður er algjörlega óútskýrður af hálfu meiri hlutans og hefur í rauninni ekkert verið ræddur í fjárlaganefnd.

Við lok 2. umr. boðaði meiri hlutinn breytingu á þremur liðum. Sjálfsagt er að taka fáa liði til endurskoðunar milli 2. og 3. umr., en í gærkvöldi lagði hann fram meira en 50 breytingartillögur á gjaldahlið frumvarpsins sem sýnir á hvílíkri fleygiferð fjárlagafrumvarpið hefur verið. Landsmenn hafa fylgst með því í gegnum fjölmiðla að mikill ágreiningur ríkir milli stjórnarflokkanna (Utanrrh.: Ég er sammála.) um hvað eigi að gera til tekjuöflunar og hvar og hvernig eigi að skera niður. Það er kannski þess vegna sem það liggur algjörlega kýrskýrt fyrir að ríkisstjórnin hefur enga sérstaka mótaða stefnu um hvernig hún ætlar að ná að sigrast á halla ríkissjóðs sem er um 37 milljarðar kr.

Af þessum 50 breytingartillögum er því miður stærstur hluti þeirra óræddur í nefndinni. Lítil sem engin gögn liggja líka fyrir um tilurð þeirra. Við óskuðum eftir að þau yrðu rædd frekar. Því var hafnað.

Stærsti útgjaldaliðurinn er um 7,9 milljarða kr. hækkun vaxtabóta. Sá sem hér stendur fagnar þeim breytingum en um leið verðum við að átelja ríkisstjórnina fyrir að skýra ekki hvernig fjármagna eigi þau útgjöld. Eins og ég kom inn á áðan eiga lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki auk hugsanlega fleiri stofnana að fjármagna vaxtaniðurgreiðslurnar samkvæmt nánara fyrirkomulagi sem verður væntanlega útskýrt seinna.

Það sem vakti líka mikla athygli var að ríkisstjórnin boðaði að farið yrði í vegaframkvæmdir fyrir allt að 6 milljarða kr. Við höfum lengi beðið eftir því að heyra hvernig samræðum ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna reiddi af varðandi fjármögnun á vegaframkvæmdum, ekki bara á suðvesturhorninu heldur líka á norðanverðu landinu, hvað varðar Vaðlaheiðargöng. Fyrir nokkrum vikum fengum við þau skilaboð að hætt hefði verið við hina svokölluðu samgöngumiðstöð. Það var útskýrt á þann hátt að borgarstjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar legðist gegn því að samgöngumiðstöð yrði á áður boðuðum stað, austan megin við flugvöllinn, var reyndar búin að gera alls kyns athugasemdir við þessa byggingu. Það lá fyrir að meiri hlutinn er á einhvern hátt andvígur þessari byggingu. Það má segja að samgöngumiðstöð hafi verið blásin af en þó á að byggja upp á einhvern hátt vestan megin við flugvöllinn, þ.e. þar sem flugstöðin er í dag. Út af fyrir sig er jákvætt að það eigi að bæta þar aðstöðu en flugvöllurinn er einfaldlega grunnskilyrði þess að í Reykjavík sé miðstöð stjórnsýslu og líka að Landspítali – háskólasjúkrahús eigi að vera í miðborg Reykjavíkur.

Fyrir um hálfum mánuði lá fyrir að slitnað hefði upp úr viðræðum við lífeyrissjóðina, ekki hefði náðst samkomulag um vexti eftir því sem ég best fæ skilið, en í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að stofna hlutafélag um framkvæmdirnar á grundvelli laga nr. 97/2010. Það verður að setja spurningarmerki við þá ákvörðun. Það liggur fyrir að ríkissjóður mun fjármagna þessar framkvæmdir að öllu leyti. Væntanlega er eina ástæða þess að farið er út í að stofna hlutafélag sú að gjaldfærslan fari fram innan þess félags en komi ekki fram á ríkisreikningi. Við höfum séð slæm dæmi um slíkt á Álftanesi þegar sundlaugarbyggingin var tekin út úr efnahagsreikningi sveitarfélagsins og framkvæmd til hliðar, svo þegar þessu var loksins skellt saman og hin raunverulega skuldastaða blasti við var sveitarfélagið komið á hausinn. Þetta er væntanlega gert til þess að komast fram hjá einhvers konar samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en 2. minni hluti lýsir sig algjörlega andvígan svona hókuspókusbrellum með fjármál ríkisins.

Annar minni hluti lýsir sig þó fylgjandi því að ráðist verði í þau verkefni sem boðuð hafa verið. Það er jákvætt að það eigi að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar, einnig að loksins eigi að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Í fjölmiðlum landsins hefur farið fram umræða um gjaldtöku á þessum vegum. Nú á að taka hið svokallaða kílómetragjald sem mun gera það að verkum að það verður mun dýrara en áður var talið að fara um Suðurlandsveg og Vesturlandsveg. 2. minni hluti gagnrýnir að það eigi að sækja auknar tekjur með þessari sérstöku skattlagningu. Það hefur ríkt mikil sátt og samstaða um það kerfi sem hefur verið hér á landi um að sækja fjármuni með svokölluðu olíugjaldi eða bensíngjaldi sem þýðir að allir landsmenn þurfa að greiða jafnmikið. Þeir sem aka mikið og kaupa meira bensín hafa þó hlutfallslega greitt meira. Ég tel afar ósanngjarnt, svo ekki sé dýpra tekið í árinni, að nú ráðist þetta af búsetu fólks. Harðar athugasemdir hafa komið fram frá íbúum, sérstaklega á Suðurlandi. Margir hverjir hafa kosið að búa austan við fjall og aka í vinnuna á hverjum degi og fyrir þau heimili er þetta gríðarleg útgjaldaaukning. Margir hverjir hafa lýst því yfir að verði þetta að veruleika sjái þeir sér ekki annað fært en að flytja í höfuðborgina, slíkur er skaðinn sem heimilisbókhaldið verður fyrir.

Við verðum að spyrja okkur hvort þetta sé stefna sem við viljum taka upp á Íslandi. Við höfum haft það að leiðarljósi og það hefur verið samstaða um það að hvar sem maður býr á landinu eigi maður að njóta sömu lífskjara. Það hefur verið reynt að taka mið af því að við búum í stóru landi þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð. Mér finnst þetta skref vera stórt skref aftur á bak þegar kemur að hagsmunum þeirra sem búa úti á landi annars vegar og hins vegar þeirra sem búa í Reykjavík.

Loksins á að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöngin. Ég man eftir kosningaloforði Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi árið 2007 þar sem fullyrt var, og stóð á borðum sem hengdir voru á Akureyri og víðar, að hún vildi að Vaðlaheiðargöngin kæmu strax. Það eru að verða fjögur ár síðan það var. Samgönguráðherra, þá nýskipaður reyndar, dró eigin loforð til baka allsnarlega um leið og hann settist í samgönguráðherrastólinn og sagði að því miður yrði að bíða aðeins. Þetta verkefni hefur verið unnið í samvinnu allra flokka. Það hefur líka verið gott samkomulag um að taka hóflegt veggjald. Í rauninni hefði sú framkvæmd ekki orðið að veruleika nema vegna þess að menn sammæltust um það að í þessu sérstaka tilviki yrði hóflegt veggjald tekið fyrir þá sem fara í gegnum göngin. Það hefur verið rætt um 500 kr., að hámarki 600 kr. Ég held að ef gjaldtakan á að fara upp fyrir það mark sem sátt ríkir um í samfélaginu muni það gera það að verkum að göngin verði mun minna notuð og þá skulum við spyrja okkur hvað við erum að gera áður en farið verður af stað.

Engu að síður verða göngin gríðarleg búbót fyrir svæðið. Þau munu tengja saman byggðir og gera fólki auðveldara að búa fyrir austan Vaðlaheiði og vinna á Eyjafjarðarsvæðinu sem og öfugt fyrir þá sem búa á Akureyri, að vinna fyrir austan fjall, svo ekki sé talað um það þegar við loksins sjáum atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík fara af stað. Þá verður aksturstíminn til Húsavíkur um 40 mínútur, sem er gríðarlega mikill munur frá því sem er núna. Mývatnssvæðið, fallegasta náttúrusvæði landsins, verður líka í hæfilegri akstursfjarlægð frá Akureyri sem ég tel að verði til mikilla bóta, svo ekki sé nú minnst á að ef hinn boðaði niðurskurður í heilbrigðismálum verður að veruleika er þetta mikið öryggistæki fyrir þá sem þurfa að sækja sjúkrahúsið á Akureyri. Víkurskarðið er lokað oft og tíðum á veturna og afar erfitt yfirferðar.

Eins og ég sagði áðan hefur ríkt sátt um það að vegaframkvæmdir séu fjármagnaðar með olíu- og bensíngjaldi. Það er ágætt við þetta tilefni að gagnrýna að sá skattstofn skuli ekki renna óskiptur til samgöngubóta. Ríkissjóður sækir sér tekjur í þennan lið og notar í annað en vegaframkvæmdir.

Annar minni hluti hefur lagt fram ýmsar breytingartillögur. Við viljum auka tekjurnar en um leið vernda velferðarkerfið eins og ég sagði áðan. Það fyrsta sem ég vil nefna er að við viljum að aðalskrifstofur ráðuneytanna geri sömu hagræðingarkröfur og öðrum stofnunum er skylt og rétt að gera. Þess vegna er lagt til að hagræðingarkrafan verði aukin í 9% eins og lagt var upp með við fjárlagagerðina, en það má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um 144 millj. kr. og á þeim tímum sem við lifum munar gríðarlega um 144 millj. kr.

Mér finnst við þetta tækifæri nauðsynlegt að benda á skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2009. Þar gagnrýnir Ríkisendurskoðun einmitt framkvæmd ráðuneytanna á boðuðum launalækkunum. Við höfum horft á það hvernig Alþingi hefur verið veikt á undanförnum árum og framkvæmdarvaldið notið góðs af. Ríkisstjórnin virðist ekki hika við að svíkjast undan í þessum efnum meðan landsmenn allir eru látnir taka á sig skellinn.

Um framkvæmd tilmæla um launalækkun segir, með leyfi forseta:

„Hinn 14. ágúst 2009 gaf ríkisstjórnin út tilmæli til ráðuneyta og stofnana um lækkun launa umfram 400 þús. kr. á mánuði. Stefnt var að því að ná fram 3–10% lækkun launa með fækkun eininga og yfirvinnustunda og átti fjármálaráðuneytið í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti að hafa forgöngu um að útfæra leiðir til að ná þessu markmiði. Gerð var könnun meðal ráðuneyta og stofnana og spurt hvernig tilmælin hefðu verið framkvæmd á árunum 2009 og 2010. Könnunin náði til samtals 197 aðila.

Í ljós kom að 61% af þeim aðilum sem svöruðu könnuninni hafði farið að tilmælunum á árinu 2009 en 39% höfðu ekki gert það.“ — Tæp 40% höfðu ekki farið að tilmælum um lækkun launa. — „Mismunandi var til hve margra starfsmanna breytingarnar náðu. Hjá nokkrum svarendum voru einungis lækkuð laun forstöðumanns í samræmi við úrskurð kjararáðs. Hjá mörgum þeirra svarenda sem ekki höfðu lækkað laun fengu starfsmenn ekki greitt fyrir ómælda fasta yfirvinnu. Hjá 47% svarenda stendur til að lækka laun á árinu 2010 í samræmi við tilmælin. Hjá öllum aðalskrifstofum ráðuneytanna voru heildarlaun umfram 400 þús. kr. á mánuði lækkuð.“

Svo heldur Ríkisendurskoðun áfram og gagnrýnir harðlega að fjármálaráðuneytið hafi ekki haft forgöngu um útfærslu leiða, þ.e. hvernig eigi að ná þessu markmiði tilmælanna. Ráðuneytið lét nægja að kynna möguleg úrræði til að ná markmiðinu en hafði ekki sérstakt eftirlit með því að stofnanirnar framkvæmdu tilmælin með samræmdum hætti.

Síðan gagnrýnir Ríkisendurskoðun hvernig fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti stóðu að því að kynna tilmæli ríkisstjórnarinnar um launalækkun og leiðbeina um framkvæmd þeirra:

„Stofnunin bendir á að nauðsynlegt er að tilmæli til stjórnenda stofnana séu skýr og valdi ekki misskilningi eða misræmi í framkvæmd.“

Það verður að horfa á þetta í því ljósi að ekki fyrir svo löngu var samþykkt á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum viðstaddra þingmanna að styrkja þyrfti Alþingi á kostnað framkvæmdarvaldsins.

Haldnar voru kosningar til stjórnlagaþings og nánast hver einasti maður sem bauð sig fram kom inn á mikilvægi þess að aðgreina löggjafarvald og framkvæmdarvald og styrkja Alþingi. Þau einu sem virðast ekki hafa tekið eftir þessum skýru skilaboðum úr samfélaginu eru hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Fyrir tveimur dögum sendi forsætisráðherra út fréttatilkynningu þess efnis að enn ætti að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra og styrkja ráðuneytin enn frekar. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sem flutti hér ágæta ræðu kom einmitt inn á það að stofnanirnar væru með óhóflegar kröfur í launakostnaði og rakti það ágætlega en allt þetta bendir til þess að ríkisstjórnin virðist ekki vera með fingur á púlsinum, virðist ekki vita hvað þjóðin vill og hvað þarf að gera til að auka virðingu Alþingis.

Við leggjum fram fleiri tillögur, t.d. að liðurinn Ófyrirséð útgjöld verði lækkaður um 2 milljarða kr. Það er í sjálfu sér ágætt að gera ráð fyrir einhverjum ófyrirséðum kostnaði en að ætla um 4 milljarða kr. í þann kostnað er að mínu mati allt of mikið. Það hafa verið tilmæli allra sem hafa fjallað um framkvæmd fjárlaga, Ríkisendurskoðunar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og jafnvel ríkisstjórnarinnar sjálfrar, að það verði að fara eftir fjárlögum, að ráðherrar megi ekki koma með útgjöld sem eru ekki samþykkt í fjárlagafrumvarpinu. 2 milljarðar kr. ættu að vera nóg í þeim efnum en því miður fór ríkisstjórnin langt fram úr eigin tillögum þegar við fórum í gegnum fjáraukalögin fyrir ekki svo löngu.

Það hefur kannski ekki farið fram hjá neinum að við höfum verið afar óhress með nýjar tillögur í heilbrigðismálum. Það þarf ekkert að fara langt aftur í tímann til að rifja upp að hér átti að keyra í gegn án umræðu, án samráðs og án gagnrýninnar hugsunar nýja stefnu í heilbrigðismálum. Niðurskurðurinn sem var boðaður átti að bitna fyrst og fremst á fólki úti á landi. Það voru haldnir fjölmargir íbúafundir, fjölmörg mótmæli, jafnvel í Reykjavík, sem þó fóru öll mjög friðsamlega fram. Þau sýndu samstöðu og einhug íbúa um að þetta mætti ekki verða að veruleika.

Ég tek sérstaklega fram að ég fagna því að dregið er allverulega úr þeim niðurskurði. Það má segja að þessi nýja stefna sé hálfpartinn söltuð en þó ekki. Allir þeir sem vinna á þessum stofnunum átta sig vel á því að ef það verður farið í þann 10% boðaða niðurskurð eins og í Þingeyjarsýslum og á Sauðárkróki á árinu 2011 og síðan haldið áfram með stefnuna eins og hún er boðuð í tillögum nefndar sem heilbrigðisráðuneytið setti á laggirnar mun niðurskurðurinn nema um 25% á næsta ári á þessum tveim stofnunum. Með öðrum orðum er verið að keyra stefnuna áfram jafnvel þótt hægt sé á henni. Ég tel þetta mjög einfalt, það sem átti að gera á einu ári á núna að gera á tveimur til þremur árum. Það mun leiða af sér gjörbyltingu að skera niður hjá stofnunum um 20% á tveimur árum. Verði það raunin er einboðið að það þarf að halda áfram. Ég veit að íbúar og starfsmenn eru þegar búnir að undirbúa sig, því miður. Einhverjir hugsa fram í tímann og velta fyrir sér hvar framtíð þeirra liggur. Það er sárt að hugsa til þess að þetta er á svæðum þar sem atvinnuleysi hefur verið mikið. Það hefur reyndar ekki mælst eins hátt og það er í raun vegna þess að fólk hefur flust af svæðinu. Við horfum upp á það núna á landinu öllu, atvinnuleysið mælist minna en reiknað var með, jafnvel þótt allar hagvaxtartölur séu verri en áður, það hægist á einkaneyslunni, á samneyslunni, á hjólum atvinnulífsins, einfaldlega vegna þess að um 10 manns flytja úr landi hér daglega.

Tillögur okkar ganga í þá áttina að farið verði í flatan niðurskurð hvað varðar þær heilbrigðisstofnanir sem eru úti á landi. Við boðum flatan niðurskurð og segjum að áður en farið er í breytingarnar á kerfinu sé algjörlega nauðsynlegt að ræða þær málefnalega og hlutlaust. Ef menn telja svo næsta haust eftir mikla umræðu að það þurfi að hagræða er mun auðveldara að ná því í gegn, þ.e. ef menn vilja. Við viljum þess vegna að hinn flati niðurskurður hvað varðar heilbrigðisstofnanir úti á landi verði 4,7%, þá undanskil ég reyndar Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vegna þess að hagræðingarkrafa þeirra er minni en við leggjum til. Það lá fyrir áður en fjárlagafrumvarpið var kynnt í haust að heilbrigðisstofnanirnar úti á landi væru reiðubúnar að taka á sig u.þ.b. 5% niðurskurð. Menn voru í startholunum með þær breytingar. Eins og ég sagði áðan leggjum við minni kröfur á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar og Vestfjarða, það er of harkalegt að ganga svona nálægt þeim, auk þess sem við tökum undir hagræðingarkröfur meiri hlutans hvað varðar Landspítalann og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Þessar tillögur okkar kosta um 620 millj. kr. lauslega áætlað. Ríkisstjórn sem getur aukið ríkisútgjöldin um 9 milljarða kr. á milli 2. og 3. umr. ætti ekki að verða skotaskuld úr því að snara út þessum fjármunum.

Við leggjum til að sóttir verði um 40 milljarðar kr. í skattlagningu á séreignarsparnaði. Við tökum þar með undir tillögur sjálfstæðismanna sem hafa lagt fram lagafrumvörp í þá veru, ef ég man það rétt, en þeir vilja skattleggja pottinn að fullu og sækja þannig um 80 milljarða kr. 40 milljarðar kr. mundu renna til sveitarfélaga. Við viljum ganga hægar á þennan pott. Við viljum skattleggja helminginn af honum nú fyrir fram, helminginn eftir á og sækja þar með um 40 milljarða kr., 20 milljarðar kr. mundu þá renna til sveitarfélaga sem yrði gríðarleg búbót fyrir þann hluta af stjórnsýslunni.

Við leggjum samt til að stærstur hluti þess fjármagns verði nýttur sem hluti af gjaldeyrisvaraforða til að sporna við frekari lántökum ríkissjóðs. Við horfum upp á það að stærsti hallinn er til kominn vegna hárra vaxtagreiðslna sem munu væntanlega hækka töluvert verði Icesave-frumvarpið samþykkt eftir áramót, en áætlað er að við munum borga um 73 milljarða kr. í vaxtagreiðslur. Það er gríðarlega há tala og það er vert að minnast á að við framsóknarmenn höfum lagt land undir fót og barist harðlega gegn því að ríkissjóður samþykki að taka öll þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi leggja á landsmenn. Við sögðum þá að ef það yrði að veruleika mundi það þýða enn meiri niðurskurð í heilbrigðis- og menntamálum en við horfum þó fram á í dag. Við bentum á að það mundi rústa hið norræna velferðarkerfi sem við Íslendingar getum svo vel státað af á Íslandi.

Eitthvað hefur mótþrói okkar virkað vegna þess að minni lán hafa verið tekin frá samstarfsþjóðum okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, auk þess sem stórum hluta hefur verið breytt í lánalínur sem þýðir að við erum ekki að borga vexti af lánum sem hafa ekki verið tekin.

Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar leggjum við til að fallið verði frá hugmyndum um að bótaflokkar almannatryggingakerfisins verði ekki uppfærðir í samræmi við verðlag. Við leggjum líka til að hætt verði við skerðingu barnabóta og leggjum til að aukið verði frekar í. Við fögnum því að það eigi að leggja umtalsverða fjármuni í vaxtabæturnar en við verðum að horfast í augu við að ungt barnafólk er sá hópur fólks sem hefur orðið hvað verst úti í hruninu. Það er einmitt fólkið sem neyddist, hvort sem því líkaði betur eða verr, til að kaupa sér þak yfir höfuðið á vondum tíma. Það er ekki hægt að kalla ákvarðanir þess óráðsíu, eins og stundum hefur heyrst hér. Lánin hafa stökkbreyst og vandi þessa fólks er mikill. Við getum horft til Færeyinga, og jafnvel Finna en kreppan sem þeir gengu í gegnum bitnaði hvað mest á ungu barnafólki. Ég hef ítrekað sagt úr ræðustól að það er nokkuð sem við megum ekki láta gerast hér. Við megum ekki standa uppi þegar kreppunni er lokið og segja þá að það hefði átt að gera betur við þennan hóp einstaklinga. Ég tel að það sé hægt að gera mun betur en hefur verið gert og þess vegna leggjum við til að barnabætur verði auknar.

Það var gert samkomulag við ASÍ og fleiri, í rauninni hafa tvær síðustu ríkisstjórnir tekið þátt í því samkomulagi að hækka persónuafslátt í samræmi við verðlag og um leið hækka persónuafslátt um 3 þús. kr. Þetta var svikið í fyrra af hálfu ríkisstjórnarinnar en um leið sagt að hún mundi standa við hækkun næsta árs. Það hefur svo verið svikið aftur núna. Þetta er ekkert annað en skattheimta á þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Jafnvel þó að ríkisstjórnin leggi út einhverja tugi milljóna núna til þessara hópa er hún engu að síður að skattleggja þá með þessum svikum um 8 milljarða kr. Það má nú ekki bæta ofan á skattheimtuna vegna þess að þetta þýðir að ríkisstjórnin ætlar sér að sækja u.þ.b. 20 milljarða kr. í vasa einstaklinga og fyrirtækja. Við leggjum til að staðið verði við þessi loforð. Þau eru lögbundin, komin í lög og við segjum að það megi ekki fresta gildistöku þeirra ákvæða lengur.

Eins og ég hef sagt hér áður fagna ég því að farið verði í stórar samgöngubætur en ég hef gagnrýnt á móti að það eigi í rauninni alveg að gera það á kostnað hinna smærri samgönguverkefna. Þess vegna leggjum við til að útgjöld í þann málaflokk verði aukin um 1,5 milljarða kr. Við gerum ráð fyrir því að um 500 millj. kr. verði settar í almennt viðhald á vegum. Það liggur fyrir núna að það verður t.d. að breikka veginn milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er sá vegur sem þarf að þola hvað mesta þungaflutninga á landinu. Hvað mest umferð fer um þennan veg og 500 millj. kr. mundu hjálpa þar verulega til.

Þá leggjum við til að settar verði um 1.000 millj. kr. í að fækka einbreiðum brúm. Þetta mundi líka gera það að verkum að verktakar úti um allt land sem eru núna við það að leggja upp laupana, margir hverjir, mundu fá aukin verkefni. Það mundi líka stórbæta samgönguöryggi, ekki síst á Austurlandi þar sem enn eru því miður fjölmargar einbreiðar brýr. Þeim verður einfaldlega að fækka.

Síðan leggjum við til að fjármagn til lögreglunnar verði aukið víðs vegar um landið. Við erum þá að tala um almenna löggæslu. Það er svo komið að fólk getur ekki treyst því að lögreglan geti mætt á vettvang á skikkanlegum tíma ef eitthvað gerist. Lögreglan úti á landi þarf oft og tíðum að keyra langar og miklar vegalengdir. Samt er búið að skera niður aksturspeninga þannig að hún hefur ekki sömu heimildir og hún hefur haft til þess að keyra á milli staða og þá held ég að það blasi við að það verði að tryggja mönnun á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum horft á það í gegnum tíðina að kreppur fjölgi brotum. Við viljum auka almenna löggæslu þannig að hinn almenni lögregluþjónn verði sýnilegri en hann hefur verið hingað til. Við leggjum til að þessar 500 millj. kr. skiptist jafnt á milli viðkomandi stofnana.

Síðan leggjum við til að setja um 1,7 milljarða kr. í að hækka framfærslugrunn námsmanna. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að ungir námsmenn þurfi að búa við það í námi sínu að hafa einungis um 120 þús. kr. til að lifa af en atvinnuleysisbætur eru um 30 þús. kr. hærri. Samt gerum við ráð fyrir að nemar greiði til baka þessar fjárhæðir. Við teljum því mjög mikilvægt að hækka framfærslugrunninn upp í 150 þús. kr.

Þá er hér tillaga um að fjárframlag til Hagsmunasamtaka heimilanna verði hækkað um 7,5 millj. kr. Hagsmunasamtökin hafa að undanförnu sannað tilverurétt sinn. Þau hafa verið gríðarlega mikilvæg í baráttunni fyrir heimilin. Það lá fyrir þegar kreppan skall á að þessi stóri hópur átti sér enga hagsmunagæsluaðila. Nú er svo komið að nefndir Alþingis senda varla frá sér lagafrumvörp án þess að fulltrúar þessara samtaka séu kallaðir til. Þeir eru beðnir um að skila áliti á öllum mögulegum lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum. Þeir hafa líka verið boðaðir í samráðshópa sem ríkisstjórnin hefur sett á laggirnar. Besta dæmið er hópur sem átti að fara yfir fjármál heimilanna sem ríkisstjórnin setti á laggirnar. Hann skilaði skýrslu í byrjun desember og fulltrúar Hagsmunasamtakanna voru einu launalausu aðilarnir sem sátu þá fundi. Jafnvel þó að ég viti að hinir fjölmörgu aðilar sem þar starfa geri það af hugsjón held ég að það sé ekki hægt að ætlast til þess að þeir gangi verulega á fjármuni sína vegna þess að nógur er nú tíminn sem þeir eyða í þessa hluti. Við erum ekki að tala um háar fjárhæðir í þessu sambandi. Ég hef talað fyrir daufum eyrum hjá meiri hluta fjárlaganefndar. Í rauninni finnst mér ótrúlegt miðað við hvað fjárlaganefnd hefur verið að styrkja upp á síðkastið að þessi aukafjárveiting skuli ekki hafa verið samþykkt. Ég geri mér hins vegar enn þá vonir um að þegar þessi tillaga kemur til atkvæða verði meiri hluti fyrir henni á Alþingi. Ég held einfaldlega að þessi samtök séu komin til að vera og að þau verði hér um langa framtíð.

Ég hef þá lokið við að fara yfir þær breytingartillögur sem við lögðum fram. Verði þær að veruleika er hægt að gæta að velferðarkerfinu, við getum þá líka komið til móts við þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Það er samt eitt sem við verðum að horfast í augu við, ríkisstjórninni hefur mistekist ætlunarverk sitt nánast hvernig sem á það er litið. (Gripið fram í.) Hagvaxtartölur gefa því miður ekkert annað til kynna en að enn á ný hægist á hjólum atvinnulífsins. Hagvaxtarspárnar eru mun verri en áður var talið. Í raun er spá Hagstofu Íslands um 1,9% hagvöxt á næsta ári bjartsýnasta spáin en við verðum að horfast í augu við það að OECD spáir hér um 1,5% hagvexti og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins spáir ekki nema 0,7% hagvexti. Hún er hvað svartsýnust, en hún er um 1 prósentustigi lægri en áðurnefndar aðrar spár. Þá er hægt að benda á að landsframleiðslan dróst hér saman um 6,8% á árinu 2009 og það er reiknað með að hún dragist saman um 3,5% á þessu ári.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur neitað að horfast í augu við staðreyndir, hann vísar í samstarfsyfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2008, samstarfsyfirlýsingu sem ríkisstjórnin á þeim tíma gerði. Þetta er svipað og ef knattspyrnulið setur sér það markmið að tapa ekki meira en 40:0, en fagnar svo gríðarlega þegar það tapar ekki nema 35:1, ég ætla að gefa liðinu eitt mark.

Á morgun verður atkvæðagreiðsla. Ég vil af þessu tilefni þakka fyrir samstarfið í fjárlaganefnd sem hefur á margan hátt verið mjög ánægjulegt. Við höfum náð samkomulagi um fjölmarga jákvæða liði. Fjárlaganefnd hefur m.a.s. sammælst um framlag til að bólusetja ungar stúlkur við leghálskrabba, það náðist góð samstaða um það. Við höfum einnig sammælst um að fornleifarannsóknir geti haldið áfram víðs vegar um landið og fjölmörg smærri verkefni sem barist hefur verið í að verði styrkt meira en boðaður niðurskurður gaf til kynna. Við atkvæðagreiðsluna á morgun mun ég svo fara ítarlega yfir tillögur okkar framsóknarmanna þegar þær koma til atkvæða. Ég vonast til þess að meiri hlutinn styðji a.m.k. einhverjar þeirra.