139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurningarnar. Ég skal reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Í fyrsta lagi hvort ég styðji framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, þá segi ég já heils hugar. Það er staðreynd að lagt var af stað í þessa framkvæmd, sem að mínu mati er ekki sjálfsagður hlutur að hafi átt að gera nema vegna þess að menn sammæltust um að hluti hennar yrði í einkaframkvæmd og að tekið yrði hóflegt gjald. Það liggur líka fyrir að samfélagið í heild sinni styður þessa tilhögun hvað varðar Vaðlaheiðargöngin. Hv. þingmaður nefndi hér 700–800 kr. Ég nefndi 500–600 kr. Ég held að 500–600 kr. sé hæfilegt gjald í göngin og að 700–800 sé með allra hæsta móti. Ég ítreka það að ég vara við því að gjaldtakan verði of mikil vegna þess að ef hún fer hærra en þetta leiðir það einfaldlega til þess að menn aka Víkurskarðið a.m.k. að sumri til þegar það er fært.

Varðandi veggjöld almennt er ég bara mótfallinn þeim. Hv. þingmaður spurði mig út í hlutafélög og nefndi að það væri í rauninni nauðsynlegt út af samstarfinu við AGS að fara þá leið. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn blessun sína yfir það að við förum í framkvæmdir sem hafa sannarlega í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð svo framarlega sem þess sér ekki stað í efnahagsreikningi ríkisins? Í mínum huga er þessi stofnun að segja okkur að gera hluti til að (Forseti hringir.) blekkja umræðuna. Ég er alfarið mótfallinn því.