139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það mætti ætla af orðum hv. þingmanns að frumvarpið hafi allt verið prentað á sama pappír. Svo það sé ekkert umdeilanlegt hafa sjálfstæðismenn aldrei hvikað frá markmiðum, hv. þingmaður, að ná jöfnuði á þessu árabili. Það var innihaldið í frumvarpinu sjálfu sem við töluðum um að þyrfti að taka gagngerum breytingum. Sem betur fer gekk það eftir þannig að þetta sé sagt hér.

Mig langar líka í síðara andsvarinu að heyra í hv. þingmanni einfaldlega vegna þess að hann hefur gefið út þær yfirlýsingar að engar tillögur hafi komið fram frá sjálfstæðismönnum til breytinga á frumvarpinu. Við lögðum fram tillögur og lögðumst gegn allnokkrum sinnum varðandi efnahagsmálin. Vissulega lögðum við ekki fram tillögur um breytingar á frumvarpinu sjálfu fyrr en fyrir stuttu síðan. Þar eru veigamiklar breytingar. Mér þætti vænt um að heyra örstutt frá hv. þingmanni viðhorf hans í grófum dráttum til uppleggsins sem er að finna í efnahagstillögunum.