139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að við höfum öll sömu markmið. Ég trúi því að þeir sem sitja á þingi hafi það markmið að ná tökum á efnahagslífi landsins. Við ætlum að halda okkur við þá efnahagsáætlun sem hefur verið unnið eftir síðan haustið 2008. Ég veit það með fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd að þar ætlum við að stefna að að ná því markmiði saman, þó okkur greini á um leiðirnar.

Það sem ég er að benda á og vísa til í ræðu minni er að breytingarnar sem hafa verið gerðar innbyrðis í frumvarpinu eru minni háttar miðað við það sem lagt var upp með. Þó hér hafi verið um háar tölur að ræða sem ég nefndi áðan þá er hluti af því greiðslur inn og út úr ríkissjóði eins og vaxtabætur upp á 6 milljarða o.s.frv.

Varðandi tillögur Sjálfstæðisflokksins þá stend ég við það að ekki hafa komið formlegar tillögur inn í fjárlaganefnd frá minni hluta nefndarinnar utan Hreyfingarinnar sem lagði (Forseti hringir.) til eina breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að fjárlaganefnd veitti 26 millj. kr. styrk til Hreyfingarinnar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það liggja fyrir í þinginu breytingartillögur, en þær hafa ekki verið ræddar í fjárlaganefnd. (Forseti hringir.)